Frábært nám sem höfðaði sterkt til mín

Guðbjörg Stefánsdóttir, sem lauk námi af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú SÍMEY í síðustu viku…
Guðbjörg Stefánsdóttir, sem lauk námi af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú SÍMEY í síðustu viku.

Dalvíkingurinn Guðbjörg Stefánsdóttir var í hópi nemenda sem lauk námi af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú hjá SÍMEY í síðustu viku. Þetta er fjögurra anna nám sem Guðbjörg segist hæstánægð með að hafa drifið sig í, það muni styrkja sig verulega í starfi sínu sem stuðningsfulltrúi í Dalvíkurskóla, þar sem hún hefur unnið undanfarin ár. Það er aldrei of seint að setjast á skólabekk, segir Guðbjörg, sem varð fimmtug 5. júní sl., daginn fyrir útskrift SÍMEY.

Í aðdraganda þess að Guðbjörg fór í námið á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú átti hún viðtal við ráðgjafa hjá SÍMEY. „Ég hafði unnið í níu ár sem stuðningsfulltrúi í Dalvíkurskóla og þar áður í þrjú ár á leikskóla. Ég fór ekki í framhaldsskóla á sínum tíma að loknum 10. bekk grunnskóla. Reyndar átti ég umsókn í Fósturskóla Íslands en varð þá ófrísk og áform um nám frestuðust. Síðan liðu árin en ég tók nokkur fög í fjarnámi í VMA 2007 og 2008 og fór svo í tvo vetur í grunnmenntaskólann í SÍMEY og sótti mér þar töluverða þekkingu. Þegar ég síðan sá námið á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrúnni hjá SÍMEY auglýst og sá hvaða fög væru kennd ákvað ég að drífa mig af stað. Mér fannst mig skorta ákveðna þekkingu í starfi mínu sem stuðningsfulltrúi í Dalvíkurskóla og þarna sá ég að var boðið upp á það nám sem mig skorti. Í Dalvíkurskóla eru sjö stuðningsfulltrúar og fimm þeirra höfðu lokið þessu námi. Ég hafði því fengið jákvæðar upplýsingar um námið frá þeim og er því sjötti stuðningsfulltrúinn í skólanum sem lýk þessu námi. Sá sjöundi er menntaður iðjuþjálfi. Ég tel því að skólinn og sveitarfélagið sé vel sett með skólann, sem hefur kennara í öllum stöðum með full réttindi og einnig menntaða stuðningsfulltrúa.“

Guðbjörg segist vera afar ánægð með námið á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrúnni. Það hafi gefið sér mikið og kennararnir og allt starfsfólk SÍMEY fái toppeinkunn. Námið segist hún hafa sótt til Akureyrar að öllu leyti fyrri veturinn en sl. vetur hafi hún haft tækifæri til þess að taka hluta þess í fjarnámi.

„Almennt höfðaði námið mjög sterkt til mín og mörg fögin voru afar áhugaverð. Ég get t.d. nefnt áfanga um hreyfingu og heilsu barna og sálfræðiáfangana. Þá er gaman að nefna að ég hafði miklar efasemdir fyrirfram um áfanga um íslenskar barnabókmenntir og hugsaði með mér að það væri alveg á mörkunum að ég nennti að sitja hann. En annað kom á daginn, áfanginn var gríðarlega skemmtilegur og fræðandi og ég hefði hreint ekki viljað missa af honum. Almennt finnst mér, að loknu þessu námi, ég vera mun betur í stakk búin til þess að takast á við ýmis verkefni sem upp kom í starfi mínu sem stuðningsfulltrúi og auk þess gefur það mér sem móður og ömmu heilmikið að hafa setið þrjá sálfræðiáfanga og tvo uppeldisfræðiáfanga, svo dæmi séu tekin. Þetta nám hefur tvímælalaust aukið sjálfstraustið og óneitanlega hefur maður að því loknu meiri trú á því sem maður tekur sér fyrir hendur. Í flestum áföngunum þurftum við í lokin að gera verkefni og kynna þau síðan með glærum. Í fyrsta áfanganum fannst mér það gríðarlega erfitt, ég skalf og nötraði fyrir framan bekkinn og þornaði í munninum. En þetta varð alltaf auðveldara og auðveldara og þegar upp er staðið var þetta afar góð reynsla sem var til þess fallin að auka sjálfstraustið. Reynsla mín er sú að nám í SÍMEY er dýrmætt tækifæri fyrir fólk til þess að drífa sig af stað í nám eftir langt hlé og mikilvægur stökkpallur til þess að takast á við eitthvað meira, ef hugur fólks stendur til þess,“ segir Guðbjörg Stefánsdóttir.