Starfsfólk SÍMEY sótti ráðstefnu á Írlandi um raunfærnimat og heimsótti símenntunarmiðstöðvar

Starfsfólk SÍMEY umvafið sól og sunnanþey á eyjunni grænu, Írlandi.
Starfsfólk SÍMEY umvafið sól og sunnanþey á eyjunni grænu, Írlandi.

Dagana 6. til 11. maí sl. sóttu átta af tíu starfsmönnum SÍMEY Írland heim og sátu þar m.a. ráðstefnu um raunfærnimat. Ferðin fékk Evrópustyrk úr Erasmus styrkjaáætlun ESB. Einnig voru heimsóttar símenntunarmiðstöðvar og púlsinn tekinn á því hvernig Írar vinna að fræðslu fullorðinna. Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY segir ferðina hafa verið mjög gagnlega, mikilvægt sé að spegla eigin starfsemi í því sem aðrir eru að gera og fá nýjar hugmyndir út frá því sem fyrir augu ber.

Þessi alþjóðlega ráðstefna um raunfærnimat, sem jafnan er efnt til annað hvert ár, síðast var hún haldin í Reykjavík, var að þessu sinni í Kilkenny, tæplega þrjátíu þúsund manna bæ suðvestur af höfuðborginni Dublin. Ráðstefnugestir voru á fjórða hundrað og komu víðs vegar að úr heiminum og var rætt um raunfærnimat frá ýmsum sjónarhornum. Meðal annars var sjónum beint að stjórnsýslulega hluta raunfærnimatsins, fjármögnun þess og stöðu innan menntakerfisins. Ráðstefnunni var skipt upp í fjölmargar málstofur þar sem sérstaklega var fjallað um einstaka anga raunfærnimatsins. Fram kom að víða er unnið með raunfærnimat á ekki ósvipaðan hátt og gert er hér á landi, þar á meðal í SÍMEY, en einnig eru farnar aðrar og ólíkar leiðir. Rauði þráðurinnn í umræðum á þinginu var raunfærnimat sem lýðræðistæki, þ.e. hvernig unnt væri að beita raunfærnimati í því skyni að jafna stöðu fólks í samfélaginu.

„Þetta voru mjög áhugaverðar og gagnlegar umræður og það sem ég helst tók út úr ráðstefnunni var að hæfni fólks er til staðar út um allt samfélagið en okkar er að koma auga á það og við sem kerfi þurfum að sníða af okkur alla þá flöskuhálsa sem eru til staðar og hjálpa fólki að staðfesta færni sína. Varðandi fjölmenningarhópinn snýst þetta ekki síst um að honum sé kleift að skrá hæfni sína, geti rætt hana við fagaðila og komið hugsunum sínum á blað. Að mínu mati þarf kerfið okkar að vera liprara gagnvart því að meta færni fólks sem kemur annars staðar frá inn í samfélagið,“ segir Valgeir og bætir við að gott dæmi um mjög vel heppnað og árangursríkt samstarf menntastiga varðandi raunfærnimat sé samstarf SÍMEY og Verkmenntaskólans á Akureyri. Þar megi til dæmis vísa til þess að SÍMEY raunfærnimeti starfsfólk sem hafi lengi unnið í matvælaiðnaði án þess að hafa lokið formlegu námi. Í framhaldinu gefist þessu fólki kostur á að stunda fjögurra anna lotunám í matartækni í VMA – í vetur hefur einmitt slíkur námshópur verið við nám í VMA og hann lýkur því næsta vor.

Í þessu sambandi má nefna að nýverið stóð Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fyrir námskeiði í SÍMEY fyrir fólk til þess að vera vottaðir aðilar í raunfærnimati. Námskeiðið sóttu um tuttugu manns, sem er til marks um áhuga á að nýta raunfærnimat sem mikilvægt tæki til þess að styrkja og efla menntun fólks á vinnumarkaði.

Valgeir segist hafa skynjað á ráðstefnunni í Kilkenny að mikill áhugi væri á raunfærnimati sem mikilvægum þætti í samfélagi hraðra tæknibreytinga. Hann sagði greinilega áherslu á að bjóða fólki upp á fjölbreyttar leiðir í því að meta hæfni sína og þekkingu.

Ráðstefnan í Kilkenny var dagana 7. og 8. maí en síðan lá leið starfsfólks SÍMEY til Cork, næststærstu borgar Írlands, í tæplega þriggja klukkustunda akstursfjarlægð suðvestur frá Kilkenny. Í Cork þekkir Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, hverja þúfu því þar var hún í háskólanámi á sínum tíma. Vegna staðþekkingar sinnar var því sjálfgefið að Ingunn héldi utan um skipulagningu Írlandsferðarinnar og með henni við hana var Helena Sif Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi.

Í Cork og hafnarbænum Cobh, skammt frá Cork, voru ólíkar símenntunarmiðstöðvar sóttar heim, í stórum dráttum má skipta fullorðinsfræðslunni þar í annars vegar Further Education og hins vegar Adult Education. Valgeir segir að eitt og annað hafi borið fyrir augu áþekkt því sem unnið er með í SÍMEY en annað hafi verið ólíkt.

„Í það heila var þetta mjög skemmtileg og fróðleg ferð fyrir okkur í SÍMEY. Það er alltaf mjög ánægjulegt fyrir okkur öll að fá tækifæri til þess að kynnast nýjum hlutum og geta speglað sig í því sem aðrir eru að gera,“ segir Valgeir Magnússon.