Ársfundur SÍMEY 2023 - reksturinn í jafnvægi á árinu 2022

Frá ársfundi SÍMEY í dag, sem var haldinn í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri. Streymt var fr…
Frá ársfundi SÍMEY í dag, sem var haldinn í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri. Streymt var frá fundinum.

Framhaldsfræðslan í landinu fór ekki varhluta af kóvidfaraldrinum síðustu þrjú árin. Samkomutakmarkanir vegna faraldursins á fyrri hluta ársins 2022 voru einn af þeim þáttum sem gerðu það að verkum að samdráttur varð í starfsemi SÍMEY – m.a. fjölda námskeiða – á árinu. Engu að síður tókst að halda rekstri SÍMEY í jafnvægi á árinu. Þetta kom m.a. fram í máli Valgeirs Magnússonar framkvæmdastjóra SÍMEY á ársfundi miðstöðvarinnar í dag.

Árið 2022 var 23. starfsár SÍMEY og voru starfsmenn 10 á árinu í 8 stöðugildum. Auk þess lögðu á bilinu 140-150 verktakar hönd á plóg – m.a. í kennslu og raunfærnimati.

Í ávarpi sínu á ársfundinum í dag var Örnu Jakobínu Björnsdóttur stjórnarformanni m.a. tíðrætt um þjóðfélagsbreytingar á Íslandi og fjölgun fólks sem hefur annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Arna sagði að ein af stóru áskorunum framhaldsfræðslunnar í landinu á komandi árum væri að þjónusta þennan hóp fólks í auknum mæli. SÍMEY hafi gert vel í þessum efnum með námskeiðum og fræðslu og miðstöðin hafi verið í fararbroddi í að sækja fram og leita nýrra leiða til þess að efla íslensku- og samfélagskennslu fyrir fólk af erlendum uppruna.

Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY gerði grein fyrir fjölþættri starfsemi SÍMEY á árinu og sagði að sem fyrr væru áskoranir framhaldsfræðslunnar af ýmsum toga og hann sagðist binda vonir við að sú endurskoðun sem nú sé unnið að skili sér í frumvarpi til laga á Alþingi um þennan málaflokk. Framhaldsfræðslan hafi áfram ríku hlutverki að gegna sem ein af mikilvægum stoðum menntunar í landinu.

Á ársfundinum voru eftirtalin tilnefnd í aðal- og varastjórn SÍMEY 2023-2025:

Aðalstjórn:
Arna Jakobína Björnsdóttir, fulltrúi opinberra stéttarfélaga
Sverrir Gestsson, fulltrúi almennra fyrirtækja
Árný Þóra Ágústsdóttir, fulltrúi sveitarfélaga við Eyjafjörð
Anna Júlíusdóttir, fulltrúi almennra stéttarfélaga
Halla Margrét Tryggvadóttir, fulltrúi Akureyrarbæjar
Ingimar Eydal, fulltrúi opinberra stofnana
Sigríður Huld Jónsdóttir, fulltrúi menntastofnana

Varastjórn:
Hjördís Sigursteinsdóttir, fulltrúi opinberra stéttarfélaga
Anna María Kristinsdóttir, fulltrúi almennra fyrirtækja
Þorgeir Rúnar Finnsson, fulltrúi sveitarfélaga við Eyjafjörð
Halldór Óli Kjartansson, fulltrúi almennra stéttarfélaga
Hlynur Már Erlingsson, fulltrúi Akureyrarbæjar
Erla Björnsdóttir, fulltrúi opinberra stofnana
Karl Frímannsson, fulltrúi menntastofnana

Þrátt fyrir samdrátt í starfsemi SÍMEY á árinu 2022, sem fyrst og fremst mátti rekja til kóvidfaraldursins, var rekstur miðstöðvarinnar í jafnvægi á árinu. Rekstrartekjur voru 224,8 milljónir króna, þar af voru tekjur vegna rekstrarsamninga 37,7 milljónir, tekjur af námskeiðum 147,8 milljónir, verkefnatekjur 31,1 milljón og aðrar tekjur 8,3 milljónir króna. Rekstrargjöld voru 227 milljónir, fjármagnstekjur 2,2 milljónir og rekstrarniðurstaðan var jákvæð um 43 þúsund krónur.

Hér er ársskýrsla SÍMEY 2022.
Hér er ársreikningur SÍMEY 2022.