Á þriðja tug starfsmanna ÚA í raunfærnimati

Kristín Björk Gunnarsdóttir og Kristján Sturluson, verkefnastjórar hjá SÍMEY, aðstoða fiskverkakonur…
Kristín Björk Gunnarsdóttir og Kristján Sturluson, verkefnastjórar hjá SÍMEY, aðstoða fiskverkakonur hjá ÚA við að gera hæfnimöppur, sem er hluti raunfærnimatsins.

Í þessari viku hafa 23 starfsmenn í fiskvinnslu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa verið í raunfærnimati í SíMEY en í sem stystu máli er raunfærni samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfs-, frístunda- og skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Starfsreynsla þessara starfsmanna ÚA er misjafnlega löng en í mörgum tilfellum hafa þeir starfað í  fiskvinnslu til fjölda ára.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem starfsmenn í fiskvinnslu fara í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY, það hafa áður gert starfsmenn í fiskvinnslu Samherja á Dalvík og á þessu ári er miðað við að níu starfsmenn þar fari í gegnum slíkt mat.

Raunfærnimat er öflugt „verkfæri“ til þess að meta færni og reynslu einstaklinga í því skyni að bæta við sig námi eða þekkingu af öðrum toga. Starfsmenn í ólíkum geirum atvinnulífsins hafa farið í raunfærnimat og almennt hefur reynslan af því verið afar góð.