Vel heppnaður Landnemaskóli í Fjallabyggð - lýkur í dag

Vel heppnuðum Landnemaskóla að ljúka.
Vel heppnuðum Landnemaskóla að ljúka.
Í dag lýkur Landnemaskólanum í Fjallabyggð með formlegum hætti en hann hófst í nóvember sl. Níu nemendur frá Siglufirði og Ólafsfirði hafa stundað þar nám. Guðný S. Ólafsdóttir verkefnastjóri er mjög ánægð með hvernig til hefur tekist.

Í dag lýkur Landnemaskólanum í Fjallabyggð með formlegum hætti en hann hófst í nóvember sl. Níu nemendur frá Siglufirði og Ólafsfirði hafa stundað þar nám. Guðný S. Ólafsdóttir verkefnastjóri er mjög ánægð með hvernig til hefur tekist.

Landnemaskólinn er námskeið á vegum SÍMEY og er ætlað fullorðnu fólki á vinnumarkaði sem ekki á íslensku að móðurmáli. Skólinn er 120 kennslustundir (80 klst) og er hægt að meta hann til allt að 10 eininga í framhaldsskóla. Tilgangur skólans er að auðvelda fólki af erlendum uppruna að aðlagast íslenskum vinnumarkaði og samfélagi. Lögð hefur verið áhersla á íslenskt talmál og nytsama samfélagsfræði, sem felur í sér heimsóknir í fyrirtæki, stofnanir og fleiri staði í Fjallabyggð, þar sem allir þátttakendur skólans búa. Að heimsóknum loknum skrifuðu nemendur einskonar dagbók á vefsíðu sem unnin var í tímum í upplýsingatækni. Einnig kynntust nemendur algengum forritum í tölvu s.s. Word og Power Point, auk þess sem þeir unnu í forritum sem þjálfa íslensku. Í íslenskunáminu var mest unnið með hliðsjón af kennslubók sem gefin er út hjá SÍMEY, fyrir framhaldsnemendur í íslensku.

Nemendur Landnemaskólans í Fjallabyggð eru frá Rúmeníu, Póllandi, Pakistan og Þýskalandi – á aldrinum átján til ríflega fimmtugs. Allir nemendur skólans nema ein stúlka frá Þýskalandi hafa búið um hríð í Fjallabyggð en þýska stúlkan er hér til ársdvalar.

Námið hófst í lok nóvember og var kennt á mánudögum og miðvikudögum kl 15-18 og sex laugardaga að auki. Á þessu tímabili voru heimsótt fjölmörg fyrirtæki á Siglufirði og Ólafsfirði og voru staðirnir ákveðnir í samráði við nemendur. Nefna má Bjórgerðina Segul67, Bæjarskrifstofu Fjallabyggðar, Síldarminjasafnið, Sigló Hótel, Listhúsið í Ólafsfirði, Kaffi Klöru, Menntaskólann á Tröllaskaga, Höllina í Ólafsfirði, Genis, Einingu-Iðju og Bókasafn Fjallabyggðar. Einnig var farið í heimsókn í nágrannasveitarfélagið Dalvíkurbyggð þar sem var kíkt í hesthúsið stóra í Svarfaðardal, í Byggðasafnið Hvol og á Kaffihús Bakkabræðra. Einnig fóru nokkrir nemendur í Rauðakrossbúðina og Litlu loppuna við Hólaveg.

Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar af nemendum í nokkrum af vinnustaðaheimsóknunum.

Guðný S. Ólafsdóttir, verkefnastjóri Landnemaskólans, segir það hafa verið virkilega gefandi og skemmtilegt að kenna nemendum Landnemaskólans og að hennar mati sé hér um mjög áhugaverða og góða nálgun að ræða fyrir fólk af erlendum uppruna. Mikilsvert sé að kynna fyrir fólki nærumhverfi þess og tengja það þannig við samfélagið.