Vel heppnaður haustfundur Símenntar í Vestmannaeyjum

Starfsfólk SÍMEY fjölmennti á haustfundinn í Eyjum. Mynd: Ingunn H. Bjarnadóttir.
Starfsfólk SÍMEY fjölmennti á haustfundinn í Eyjum. Mynd: Ingunn H. Bjarnadóttir.

„Fundurinn var mjög vel heppnaður og ánægjulegur,“ segir Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY um árlegan haustfund Símenntar – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem var haldinn í Vestmannaeyjum dagana 19. og 20. september sl. Jafnframt var haldinn fundur forstöðumanna símenntunarmiðstöðva á landinu þar sem var farið yfir sameiginleg mál þeirra og skipst á skoðunum. Auk fulltrúa símenntunarmiðstöðvanna mættu til haustfundarins í Eyjum fulltrúar Rafmenntar, Starfsmenntar, Iðunar og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Hildur Bettý Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, og Fjóla María Lárusdóttir, þróunarstjóri hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, voru með fróðlegt erindi um innflytjendamál og fjölmenningu. Erindið kölluðu þær Ferðalag einstaklingsins í gegnum framhaldsfræðsluna – inngilding innflytjenda í samfélag, nám og störf.

Nichole Leigh Mosty, sérfræðingur á sviði málefna innflytjenda og inngildingar hjá Fjölmenningarsetrinu, flutti erindið Fullorðinsfræðslan er lykill að inngildingu innflytjenda þar sem hún ræddi m.a. hvernig það er að vera útlendingur á Íslandi og mikilvægi símenntunarmiðstöðvanna í að þjónusta þá.

Hallur Jónasson og Sigurður Norðfjörð hjá stafrænu auglýsingastofunni Sahara voru með erindið Stafrænir miðlar – þróun og bestun í nútíma auglýsingaheimi þar sem þeir fjölluðu um markaðsstarf í stafrænum heimi samfélagsmiðlanna. Meðal annars fóru þeir yfir, samkvæmt sinni reynslu, hvaða leiðir til markaðssetningar á samfélagsmiðlum virki og hvaða leiðir skili ekki árangri. Einnig ræddu þeir um öryggismál á netinu og hvað beri að varast í þeim efnum.

Seinni hluta síðari fundardagsins var þátttakendum skipt í tvær málstofur. Sif Jóhannesar Ástudóttir og Kristín Björk Gunnarsdóttir frá SÍMEY fjölluðu um þróunarverkefni sem þær hafa komið að á undanförnum árum sem tekur m.a. til Evrópska tungumálarammans og hæfnimats fyrir nám í íslensku sem öðru tungumáli. Helgi Þ. Svavarsson frá SÍMEY stjórnaði umræðum á málstofunni.

Á hinni málstofunni var sjónum beint að markaðsmálum símenntunarmiðstöðvanna frá ýmsum sjónarhornum. Birna V. Jakobsóttir frá MSS – miðstöð símenntunar á Suðurnesjum var með framsögu og einnig fjallaði Andrea Gylfadóttir frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða (FRMST) um Meta for Business og hvernig FRMST nýtir sér það veftól. Hólmfríður Karlsdóttir frá MSS stýrði umræðum á málstofunni.

Haustfundurinn var prýðilega vel sóttur og komu fulltrúar frá öllum símenntunarmiðstöðvunum til Eyja. Gestgjafi og um skipulagningu haustfundarins sá Viska símenntunarmiðstöð í Vestmannaeyjum.

Auk fundarhalda nutu þátttakendur í haustfundinum m.a. fræðslu Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra um samfélagið í Eyjum í nútíð og fortíð og einnig voru atvinnufyrirtæki sótt heim.