Vel heppnaður haustfundur á Akureyri

Við Skógarböðin eftir fróðlegan fundardag. Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, Hild…
Við Skógarböðin eftir fróðlegan fundardag. Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, og Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðar Vesturlands.

Um hundrað manns sóttu sameiginlegan haustfund Kvasis – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem var haldinn í SÍMEY sl. þriðjudag og í gær, 27.-28. september. Tæplega sjötíu manns sóttu fundinn á Akureyri og auk þess fylgdust um þrjátíu manns með honum í beinu streymi. 

„Að mínu mati gekk þessi fundur vel og ég fann ekki annað en að það væri almenn ánægja með það fyrirkomulag sem við höfðum á fundinum. Þetta var fyrsti sameiginlegi fundur fræðslu- og símenntunarmiðstöðva eftir kóvidfaraldurinn, síðasti fundurinn fyrir faraldurinn var á Húsavík 2019, og ég held að það hafi allir verið sammála um hversu gott það var að hittast aftur og geta farið yfir málin,“ segir Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY.

Dagskrá fundarins var viðamikil og margt fróðlegt kom fram. Tveir fyrirlestrar voru haldnir, annars vegar um svokallað Fagbréf atvinnulífsins og hins vegar um jákvæða sálfræði og hvernig unnt sé að tengja hana inn í framhaldsfræðsluna, bæði fyrir þá sem miðla og þá sem nýta sér þjónustuna.

Tólf vinnustofur voru á þessum tveggja daga fundi:

Fjölbreyttar kennsluaðferðir og nálganir í fullorðinsfræðslu.
Áskoranir og tækifæri í markaðs- og kynningarmálum.
Greining á fræðsluþörfum.
Starfstengd íslenskukennsla.
Þróun náms innan ramma Fræðslusjóðs.
Samstarf við vinnustaði.
Samstarf um virkniúrræði.
Ráðgjöf (umbreyting).
Nýir tímar, ný hæfni.
Nám fatlaðs fólks.
Gæðavitinn.
Fjölmenning og þjónusta við flóttamenn.

Auk þessa sameiginlega fundar fulltrúa fræðslu- og símenntunarstöðva í landinu og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins funduðu forstöðumenn símenntunarmiðstöðvanna og einnig var haldinn aukaaðalfundur Kvasis. Þar kom m.a. fram að ákveðið hafi verið að breyta nafni samtakanna í SÍMENNT – samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva.

Á fundinum kynntu fulltrúar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi raunfærnimats, sem hugmyndin er að taki gildi áður en langt um líður. Þá var mikið rætt um heildarendurskoðun á fullorðinsfræðslu í landinu sem nú er unnið að. Nú þegar hefur tekið til starfa stýrihópur sem mun vinna að þessum málum á næstu mánuðum. Síðar í haust er ætlunin að efna til fundar til þess að fá fram sem flest sjónarmið og í kjölfarið verður unnin græn- og síðan hvítbók sem verður lögð til grundvallar við gerð frumvarps er verði lagt fyrir Alþingi á haustþingi 2023.

Að kvöldi fyrri fundardags fóru fundargestir í Skógarböðin og deginum lauk með kvöldverði í golfskálanum á Jaðri þar sem Svavar Knútur söng og spilaði fyrir gesti.