Vel heppnað nám um íslenska menningu og samfélag

Punkturinn yfir i-ið í náminu var fræðslu- og menningarferð í Mývatnssveit og til Húsavíkur. Hér spi…
Punkturinn yfir i-ið í náminu var fræðslu- og menningarferð í Mývatnssveit og til Húsavíkur. Hér spilar og syngur Grazyna Siedlecka á sínu móðurmáli, pólsku, í Grjótagjá. Myndina tók Romualdas Sleinius.

Núna á vorönn hefur SÍMEY boðið í fyrsta skipti upp á Íslenska menningu og samfélag, vottaða námsleið Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins fyrir fólk af erlendum uppruna. Námið er hugsuð til þess að auðvelda fólki aðlögun að hérlendum vinnumarkaði og samfélag. Í lýsingu á námsleiðinni segir að áhersla sé lögð „á íslenskt mál, menningu, samfélag og atvinnulíf ásamt því að byggja upp sjálfstraust og samskiptafærni.

Námið, sem að þessu sinni var sett upp í samstarfi við Vinnumálastofnun, hófst í byrjun mars og endapunkturinn var settur 6. maí sl. með skemmtilegri menningar- og fræðsluferð í Mývatnssveit og til Húsavíkur.

Sif Jóhannesdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY hafði yfirumsjón með náminu. Hún segir það arftaka Landnemaskólans, námsleiðar sem kennd var m.a. í SÍMEY fyrir nokkrum árum. „Það má segja að námið hafi verið þrískipt; í fyrsta lagi íslenskunám, í öðru lagi ýmislegt er lýtur að íslensku samfélagi – m.a. var fjallað um stjórnmál og stofnanir, lög og reglur, sveitarfélög og hlutverk þeirra og í þriðja hlutanum var rætt um sögu og menningu, landafræði og jarðfræði landsins. Tíu manns voru í náminu og fór það bæði fram á íslensku og ensku. Þátttakendur voru frá Brasilíu, Bandaríkjunum, Slóvakíu, Ungverjalandi, Lettlandi, Póllandi og Rúmeníu og hafa þeir búið hér á landi misjafnlega lengi. Nemendurnir voru einstaklega áhugasamir, spurðu mikið og tóku virkan þátt í umræðum,“ segir Sif.

„Mér fannst þetta vera mjög vel heppnað nám og þátttakendur lýstu mikilli ánægju með það. Við lögðum mikla áherslu á íslenskuþáttinn og að námið væri fjölbreytt og lifandi. Við fórum t.d. í heimsókn til bæjarstjórans á Akureyri, Ásthildar Sturludóttir, fórum á Minjasafnið á Akureyri og Listasafnið á Akureyri og nutum hópeflisæfinga í Samkomuhúsinu. Einnig fengu þátttakendur fræðslu um stofnun fyrirtækja og að vinna með hugmyndir. Í gegnum fjarfundabúnað fengum við kynningar á bæði Útlendingastofnun og skrifstofunni New in Iceland – ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur.
Þegar við fórum af stað vorum við ekki með allt niðurneglt um hvernig námið ætti nákvæmlega að vera, það þróuðum við innan ramma námskrárinnar út frá óskum þátttakenda. Kennt var frá mánudegi til fimmtudags, 3-4 tíma á dag.
SÍMEY stefnir að því að bjóða aftur upp á þessa námsleið næsta haust. Ég er nokkuð viss um að margir af erlendum uppruna hefðu mikið gagn af því að fara í gegnum þetta nám,“ segir Sif.

Hér eru myndir sem voru teknar í ferðinni í Mývatnssveit og til Húsavíkur. Þær tóku tvö úr námshópnum; Grazyna Siedlecka og Romualdas Sleinius.