Unnið að undirbúningi náms í ferðaþjónustu

Frá fundi samráðshópsins í september sl. Frá vinstri: Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtak…
Frá fundi samráðshópsins í september sl. Frá vinstri: Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Valgerður Þ. E. Guðjónsdóttir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, Haukur Harðarson frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Diljá Helgadóttir, kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga, Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, og Ómar Kristinsson, sviðsstjóri í VMA.

Horft er til þess að áður en langt um líður, helst haustið 2023, verði unnt að bjóða upp á námslínu í ferðaþjónustu í bæði framhaldsfræðslunni og á framhaldsskólastigi. Að þessu verkefni hefur lengi verið unnið og hefur SÍMEY haldið utan um verkefnið.

Ferðaþjónustan hefur lengi kallað eftir námi fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu og þá sem hyggjast starfa í þeirri atvinnugrein í framtíðinni. Á síðasta ári skrifuðu Fræðslumiðstöð atvinnulífsins/Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu á Höfn námskrá fyrir slíkt nám, annars vegar fyrir framhaldsfræðsluna og hins vegar fyrir framhaldsskólakerfið. Námskráin fyrir framhaldsskólanámið er nú í vottunarferli hjá Menntamálastofnun og þegar því verður lokið verður farið aftur yfir framhaldsfræðslunámskrána til samræmingar og hún síðan send í samskonar vottunarferli hjá Menntamálastofnun. Þegar allri þessari vottunarvinnu lýkur verða námskrárnar gerðar aðgengilegar og þá verður unnt að bjóða upp á nám samkvæmt þeim.

Nám í ferðaþjónustu er sett upp samkvæmt íslenska hæfnirammanum um menntun. Hugmyndin er sú að af hæfniþrepi 2 (90 einingar) eða hæfniþrepi 3 (160 einingar) geti nemendur útskrifast með fagbréf. Einnig er gert ráð fyrir að nemendur geti bætt við sig einingum til stúdentsprófs og með það í farteskinu er opin leið í ferðaþjónustutengt nám á háskólastigi. Þá er einnig við það miðað að unnt verði að raunfærnimeta fólk sem hefur starfað í ferðaþjónustu inn í þessa væntanlegu námslínu, eins og á við um nám í mörgum öðrum atvinnugreinum.

Að verkefninu vinnur SÍMEY fyrir hönd framhaldsfræðslunnar, Verkmentaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Tröllskaga fyrir hönd framhaldsskólastigsins, Háskólinn á Hólum fyrir háskólastigið, Samtök ferðaþjónustunnar og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar.

Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, sem hefur leitt þetta verkefni fyrir hönd SÍMEY, segir að áður en lengra verði haldið með verkefnið þurfi að ljúka vottunarferlinu á námskránum hjá Menntamálastofnun en að því loknu verði hægt að ljúka við að móta verklag og samæma milli skólastiga. Þegar það liggi allt fyrir verði unnt að bjóða upp á þetta nám í framhaldsfræðslunni og á framhaldsskólastigi.

„Að þessu hefur verið lengi unnið, meira og minna síðan Hæfnisetur ferðaþjónustunnar var sett á stofn árið 2017. Samtök ferðaþjónustunnar hafa einnig lengi verið mjög áhugasöm um að koma á skipulegu námi í greininni,“ segir Helgi og bætir við að í næstu viku muni samráðshópurinn funda á ný um næstu skref í verkefninu.