Tuttugu og tveir luku raunfærnimati í fisktækni

Þær unnu ásamt fleirum að raunfærnimatinu;  Ásdís V. Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Í…
Þær unnu ásamt fleirum að raunfærnimatinu; Ásdís V. Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands (t.v.) og Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY.

Fyrr í þessum mánuði luku tuttugu og tveir einstaklingar raunfærnimati í fisktækni hjá SÍMEY. Flestir hafa starfað í fiskvinnslu en einnig voru raunfærnimetnir einstaklingar sem hafa starfað í fiskeldi og við sjómennsku. Umsjón með raunfærnimatinu af hálfu SÍMEY höfðu Kristín Björk Gunnarsdóttir og Emil Bjarkar Björnsson og Ásdís V. Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands, vann einnig að raunfærnimatinu.

„Við vinnum raunfærnimat út um allt land með símenntunarmiðstöðvunum og almennt gengur þetta mjög vel. Flestir hafa farið í gegnum raunfærnimat í fisktækni hjá SÍMEY,“ segir Ásdís V. Pálsdóttir.

„Í framhaldinu er spurning  hvað fólk vill gera, hvort það vill fara í nám eða ekki. Margir fara í nám hjá okkur í fisktækni. Raunfærnimatið er til þess fallið að stytta leiðir fólks í námi. Fólk sem hefur starfað í fiskvinnslu lengi og hefur aflað sér mikillar þekkingar og reynslu þarf ekki að taka fullt grunnám í fisktækni, það þarf mögulega að vera í eitt ár í náminu eða jafnvel styttri tíma. Ávinningurinn af raunfærnimatinu er alltaf mikill, bæði fyrir viðkomandi einstaklinga og líka fyrir fyrirtækin því þegar fólk hefur farið í gegnum raunfærnimatið hefur það hvata til þess að fara í nám og fyrir fyrirtækin er mikilvægt að hafa vel menntað fólk. Við vitum að tækninni hefur fleygt fram í fiskvinnslunni um allt land, til dæmis er stutt í að nýtt hátæknifiskvinnsluhús Samherja verði opnað á Dalvík. Um leið og tæknin eykst í greininni verður aukin krafa um menntun starfsmanna,“ segir Ásdís.

Hún segir að þó svo að fólk sem fer í raunfærnimat fari ekki áfram í nám í fisktækni sé alltaf mikill ávinningur af raunfærnimatinu. „Það er alltaf ávinningur því raunfærnimatið gerir það að verkum að viðkomandi fær metnar einingar inn í formlega skólakerfið. Raunfærnimatið nýtist því öllum sem í það fara í hvað sem fólk tekur sér fyrir hendur. Almennt má segja að í raunfærnimatsviðtölunum kemur það fólki alltaf jafn mikið á óvart hversu mikilli kunnáttu það býr yfir,“ segir Ásdís og rifjar upp að í maí á sl. ári hafi Menntaskólinn á Tröllaskaga í Ólafsfirði útskrifað 20 nemendur af fisktæknibraut. Um var að ræða samstarfsverkefni skólans, SÍMEY og Fisktækniskóla Íslands og var unnið í framhaldi af því að hópur starfsmanna í fiskvinnslu Samherja á Dalvík og Akureyri fór í raunfærnimat.