Tuttugu og tveir ljúka raunfærnimati í almennri starfshæfni

Hluti þeirra sem luku raunfærnimatinu í dag.
Hluti þeirra sem luku raunfærnimatinu í dag.
Undanfarnar vikur hafa 22 atvinnuleitendur á Akureyri og Dalvík farið í gegnum raunfærnimat í almennri starfshæfni í samvinnu við Vinnumálastofnun og í dag var komið að formlegum lokapunkti þegar niðurstöður matsins voru afhentar þátttakendum og þeim veittar staðfestingar á því að þeir hafi lokið raunfærnimatinu.

Undanfarnar vikur hafa 22 atvinnuleitendur á Akureyri og Dalvík farið í gegnum raunfærnimat í almennri starfshæfni í samvinnu við Vinnumálastofnun og í dag var komið að formlegum lokapunkti þegar niðurstöður matsins voru afhentar þátttakendum og þeim veittar staðfestingar á því að þeir hafi lokið raunfærnimatinu.

Þetta er í annað skipti sem boðið er upp á raunfærnimat í almennri starfshæfni í SÍMEY. Haustið 2014 reið SÍMEY á vaðið hér á landi með tilraunaverkefni í samstarfi við Vinnumálastofnun Norðurlands eystra þar sem hópur atvinnuleitenda fór í gegnum slíkt raunfærnimat í almennri starfshæfni. Í sem stystu máli var reynslan af verkefninu mjög góð og eins og til var ætlast reyndist það til þess fallið að styrkja atvinnuleitendur í að fara út á vinnumarkaðinn og leita sér að vinnu.

Í raun má segja að um sé að ræða eitt stórt atvinnuviðtal. Þátttakendur verða að hafa að lágmarki fimm ára starfsreynslu og vera eldri en 25 ára. Þeir fara markvisst í gegnum ákveðin hæfniþrep.

Almenn starfshæfni vísar til þeirrar hæfni sem hver einstaklingur þarf að búa yfir eða tileinka sér til þess að taka virkan þátt í samfélaginu, vera á vinnumarkaði, þróast í starfi og geta tekist á við meira krefjandi störf. Með því að fara í gegnum raunfærnimat í almennri starfshæfni er takmarkið að auka velgengni viðkomandi einstaklinga á vinnumarkaði, kalla fram styrkleika þeirra og efla þá en um leið að styrkja það sem upp á vantar.

Hildur Betty Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, orðar það svo að í raun snúist þetta verkefni um hvaða hæfni starfsmenn þurfi að búa yfir til þess að vera virkir á vinnumarkaði og geta tekið að sér ýmis störf.

Valgeir Magnússon, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segir að sú reynsla sem nú þegar hafi fengist af raunfærnimati í almennri starfshæfni sýni að það hjálpi fólki að horfa fram á veginn og halda áfram. „Hluti þessara atvinnuleitenda hefur litla menntun að baki og því er sjálfstraust margra því kannski ekki mjög mikið, en fólk uppgötvar þegar það er búið að fara í gegnum raunfærnimatið að það býr yfir mikilli kunnáttu og hefur margt fram að færa,“ segir Valgeir.

Hluti af raunfærnimatinu eru ítarleg viðtöl sem tveir matsaðilar taka við þátttakendur. Að þessu sinni önnuðust viðtölin þær Anna Lóa Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY og Svanfríður Jónasdóttir, fyrrv. bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð.

Sem fyrr segir fóru að þessu sinni 22 atvinnuleitendur, sem hafa verið í atvinnuleit í 3-12 mánuði, í gegnum raunfærnimat í almennri starfshæfni hjá SÍMEY, þar af fjórtán á Akureyri og átta á Dalvík. Síðan verkefnið hófst hafa tveir úr hópnum fengið vinnu.

Í framhaldi af afhendingu niðurstaðna raunfærnimatsins í dag verður farið yfir þær með hverjum og einum þátttakanda og línur lagðar um næstu skref. SÍMEY mun síðan næsta hálfa árið fylgjast með því hvernig þeim vegnar.