Tungumálamarkþjálfun virkar vel

Almenn ánægja var með þetta nám i markþjálfun í tungumálanámi sem Stine Hesager Lema, þróunarráðgjaf…
Almenn ánægja var með þetta nám i markþjálfun í tungumálanámi sem Stine Hesager Lema, þróunarráðgjafi og tungumálaþjálfi í hæfnimiðstöð Studieskolen í Kaupmannahöfn, kenndi.

Núna á vorönn stóð SÍMEY fyrir afar áhugaverðu námi í markþjálfun í tungumálanámi (Language Coaching) sem Stine Hesager Lema, þróunarráðgjafi og tungumálaþjálfi í hæfnimiðstöð Studieskolen í Kaupmannahöfn, kenndi. Kristín Björk Gunnarsdóttir og Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjórar hjá SÍMEY, sátu námskeiðið og eru sammála um að tungumálamarkþjálfun sé áhugaverð viðbót í tungumálanámi sem muni í auknum mæli ryðja sér til rúms. Auk Kristínar og Ingunnar voru þátttakendur frá Múltíkúltí málamiðstöð í Reykjavík, Framvegis - miðstöð símenntunar í Reykjavík og Farskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Þáttakendur lýstu mikilli og almennri ánægju með námið.

En fyrir hvað stendur markþjálfun í tungumálanámi? Í sem einföldustu máli má segja að hún hafi það að markmiði að vekja og glæða áhuga hvers og eins nemanda til þess að takast á við tungumálanámið og gildir þá einu hvaða tungumál nemandinn lærir. Takmarkið með tungumálaþjálfanum er að virkja áhugahvöt nemandans, að hann upplifi að á hann sé hlustað og hann sé virkur í að kanna hvað henti honum í raun best.  Þannig er mörkuð ákveðin leið sem miðar að sem bestri útkomu í námi hvers nemanda.

Þetta nám í tungumálamarkþjálfun var þannig byggt upp að í febrúar sl. var tveggja daga staðkennsla í húsakynnum SÍMEY en síðan var fjarkennsla á netinu í tvo daga, einu sinni í mars og aftur í apríl, og lokaskref námskeiðsins var staðkennsla í Reykjavík 14. maí sl. Á milli staðnámslotanna og fjarkennsludaganna æfðu og þjálfuðu þátttakendur sig í því að taka   markþjálfaviðtöl við nemendur sem voru að læra íslensku sem annað mál. 

Kristín Björk og Ingunn Helga segjast meta það svo að tungumálamarkþjálfun sé ákveðið tæki sem nýtist afar vel öllum sem halda utan um og/eða kenna tungumál, m.a. verkefnastjórum, kennurum og námsráðgjöfum. Þetta sé hins vegar óþekkt hjálpartæki í tungumálanámi hér á landi, þetta nám hafi verið það fyrsta sem kennir þessa aðferðafræði. En í ljósi þess hversu áhugavert og nytsamlegt þetta nám hafi verið stefni SÍMEY á að setja upp sambærilegt nám í tungumálamarkþjálfun næsta vetur, líklega á vorönn 2025. Í haust, á haustönn 2024, mun Stine Hesager Lema hins vegar verða með svokallað Classroom Coaching námskeið fyrir tungumálakennarana sem kenna í SÍMEY. Sú hugmyndafræði gengur ekki síst út á að í stað þess að kennarinn ausi úr sínum viskubrunni yfir nemendur séu þeir virkjaðir til þátttöku í skólastofunni.

„Í SÍMEY stendur öllum okkar nemendum til boða frí tungumálamarkþjálfun. Við lítum svo á að hún sé mikilvægur þáttur í að auka og bæta utanumhald um okkar nemendur. Almennt upplifi ég tungumálamarkþjálfunina sem gott verkfæri til þess að eiga samtal við hvern og einn nemanda um tungumálið sem viðkomandi er að læra, hvort sem það lýtur að ritun, hlustun, talmáli eða málfræði,“ segir Kristín Björk Gunnarsdóttir.

„Grunnstefið í þessu er að tungumálanámið veiti fólki ánægju en sé því ekki erfið hindrun. Þess vegna er svo mikilvægt að eiga samtal við nemendurna, að þeir tjái sínar hugrenningar um hvað þeir vilja leggja áherslu í náminu þannig að það verði í senn skemmtilegt og nytsamlegt,“ segir Ingunn Helga Bjarnadóttir.