Þröskuldurinn var stærsta hindrunin

Stefán Benjamínsson.
Stefán Benjamínsson.

Fyrr á þessu ári lauk Stefán Benjamínsson raunfærnimati hjá SÍMEY en hann hefur bróðurpart sinnar starfsævi starfað sem bræðslumaður, fyrst í loðnubræðslunni í Krossanesi við Eyjafjörð og eftir að hún var lögð niður starfaði hann um árabil í bræðslu Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn. Nú starfar hann við ýmis störf í drykkjaverksmiðju á Akureyri.

„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri og hóf árið 1993 að starfa í Krossanesverksmiðjunni. Þegar verksmiðjunni var lokað árið 2007 starfaði ég áfram hjá eiganda hennar, Ísfélagi Vestmannaeyja, í bræðslu þess á Þórshöfn. Ég hef unnið meira og minna frá 1993 í bræðslum, nema þegar hefur verið loðnubrestur, þá hef ég farið í eitthvað annað,“ segir Stefán.

Hann segist lengi hafa velt raunfærnmati fyrir sér áður en hann ákvað að taka skrefið. „Ég hafði skoðað þetta í um þrjú ár en eftir að ég flutti frá Þórshöfn til Akureyrar um síðustu áramót ákvað ég að láta verða af því sem ég hafði lengi velt fyrir mér. Ég fór í SÍMEY og ræddi þar við ráðgjafa um þann möguleika að fara í raunfærnimat. „Ég viðurkenni að það erfiðasta var ákvörðunin sjálf, að ganga yfir þröskuldinn í SÍMEY og bera upp erindið. Ég hef setið fjölda starfstengdra námskeiða en hef einhvern veginn ekki getað komið mér að því að taka næsta skref. En að lokum var þetta skyndihugdetta, ég vildi láta á þetta reyna og sé ekki eftir því, þetta var góð ákvörðun. Raunfærnimatið gekk vel og mér finnst mikilvægt að hafa fengið formlega viðurkenningu á ýmsu því sem ég hef unnið í gegnum tíðina. Það skiptir verulegu máli. Í framhaldi af raunfærnimatinu skráði ég mig í tvær námsgreinar í gæðastjórnun í Fisktækniskólanum, annars vegar hagfræði og hins vegar haf- og fiskifræði. Námið tek ég í fjarnámi og mér líst vel á það. Ég hef að vísu ekki setið á skólabekk í um þrjátíu ár, síðan ég var í grunndeild málmiðnaðar í Verkmenntaskólanum á Akureyri, en í fjarnáminu í Fisktækniskólanum hef ég m.a. góðan stuðning og hvatningu frá dóttur minni sem er í kennaranámi í Háskólanum á Akureyri. Ég neita því ekki að það blundaði alltaf í mér að fara aftur í nám en mig skorti að taka skrefið. Stefnan er að halda áfram í náminu í Fisktækniskólanum í haust og svo sjáum við bara til hvert það leiðir mig,“ segir Stefán Benjamínsson.