Þrettán nemendur brautskráðir úr náminu "Stökkpalli"

Ellefu af þrettán nemendum sem luku náminu Stökkpalli - að lokinni brautskráningu í SÍMEY í gær.
Ellefu af þrettán nemendum sem luku náminu Stökkpalli - að lokinni brautskráningu í SÍMEY í gær.

Í gær, 5. janúar, brautskráði SÍMEY þrettán nemendur á aldrinum 20-30 ára úr náminu „Stökkpalli“. Námið, sem er ætlað þeim sem hafa horfið frá námi og/eða eru án atvinnu, hófst 19. október sl. og var í það heila 180 klukkustundir. Það byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og var unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun og Fjölsmiðjuna á Akureyri.

Vel var mætt á brautskráninguna og var ánægjulegt að sjá hversu margir aðstandendur og vinir sáu sér fært að mæta og samfagna þeim þrettán einstaklingum sem luku náminu.

Jákvæð reynsla
Af orðum nemendanna við brautskráninguna mátti ráða að námið hafi gefið þeim mikið og gert sitt gagn. Einn þeirra, Berglind Ösp Viðarsdóttir, segir að námið hafi komið sér á óvart og það hafi ótvírætt hjálpað sér.
Hún eignaðist dótturina Amöndu í maí 2016 og var í fæðingarorlofi fram í nóvember það ár. Erfiðlega hefur gengið fyrir hana að fá hlutastarf því vegna litlu dótturinnar hefur hún ekki haft tök á því að vinna allan daginn. Hún hefur því verið á atvinnuleysisbótum og það var í gegnum Vinnumálastofnun sem hún fór í „Stökkpall“.

„Ég kom sjálfri mér á óvart í náminu. Ég hef lengi verið til baka en námið veitti mér og ég held okkur öllum aukið sjálfstraust. Þar hugsa ég að hópeflið hafi skipt miklu máli. Mín reynsla var mjög jákvæð og ég mæli eindregið með þessu námi. Ég tel mikilvægt að fylgja þessu áfram eftir,“ segir Berglind Ösp.

Fjórir meginþættir í „Stökkpalli“
„Stökkpallur“ er á svokallaða fyrsta hæfnisþrepi og skiptist í fjóra meginþætti; markmiðasetningu og sjálfseflingu, samskipti og samstarf, vinnuumhverfi og vinnustaði og vettvangsnám á vinnustað.

Auk kennara frá SÍMEY kenndu aðrir fagaðilar ákveðna þætti í náminu og einnig komu gestir úr atvinnulífinu og frá verkalýðshreyfingunni og báru fjölbreyttan fróðleik á borð fyrir nemendur.

Sem fyrr segir hófst námið 19. október sl. Skóladagurinn hófst kl. 09:00 með morgunverði í SÍMEY og síðan var kennt frá 09:30 til 12:30. Síðustu tvær vikurnar fyrir jól voru nemendur í vettvangsnámi á ýmsum vinnustöðum og gerðu síðan grein fyrir þeirri vinnu í metnaðarfullum kynningum á síðasta skóladegi sl. fimmtudag.

Verkefnastjóri Stökkpalls var Sólveig Helgadóttir og umsjón með náminu auk hennar hafði Aníta Jónsdóttir, verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY.

Við brautskráninguna í gær sagði Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY að reynslan af „Stökkpalli“ hafi verið afar jákvæð og upplýsti hann að námið yrði aftur í boði núna á vormisseri.

Að kenna nemendum á lífið
Sólveig Helgadóttir verkefnastjóri sagði að þessi vinna hafi verið sér ný en afar jákvæð og ánægjuleg reynsla. Eftir að hafa starfað í átta ár á tannlæknastofu ákvað hún að breyta til og dreif sig í markþjálfanám í SÍMEY. Hún tók grunnnámið og hélt síðan áfram og lauk framhaldsnáminu í júní á síðasta ári og starfar nú sem markþjálfi. Af hreinni tilviljun datt starf verkefnastjóra „Stökkpalls“ upp í hendurnar á henni og segist hún vera afar þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.

„Það hefur heillað mig að vinna með ungu fólki og í starfi mínu sem markþjálfi hef ég tekið mörg viðtöl við ungt fólk. Vinnumálastofnun bauð mér síðan að koma inn í þetta verkefni og það hjálpaði mér að segja já við því að ég hafði verið í markþjálfanámi mínu hér í SÍMEY og þekkti því þann góða starfsanda sem er hér,“ segir Sólveig.

„Upplifun mín af „Stökkpalli“ er afar jákvæð. Þetta var í senn gefandi og krefjandi. Við lögðum mikla áherslu á að efla hvern einstakling í náminu og styrkja hann og að hann skynjaði að hann væri mikils virði. Við byrjuðum alla daga á því að skrifa niður hvað við værum þakklát fyrir eða eitthvað jákvætt um okkur sjálf. Þetta var liður í því að efla sjálfsálit þátttakenda. Við fórum í ýmis samskiptamál og ef draga ætti námslýsinguna í eina setningu væri hún eitthvað á þessa leið: Að kenna nemendum á lífið.
Núna þegar við höfum lokið náminu er áhugavert að rifja upp hversu miklar breytingar við leiðbeinendurnir höfum upplifað á nemendum síðan við hittumst í fyrsta skipti 19. október. Á fyrsta degi var það þeim nær ómögulegt að hrósa sjálfum sér en í lokin var það eðlilegasti hlutur í heimi. Við sáum með öðrum orðum gríðarlegan mun á þátttakendum frá því við hittumst í október sem segir mér hversu mikilvægt og gagnlegt þetta verkefni er. Við sem héldum utan um námið tókum um það meðvitaða ákvörðun að segja nemendum aldrei frá því fyrirfram hvað værum að fara að gera næsta dag. Til að byrja með fannst þeim það skrítið en svo komust þeir fljótt að raun um að þetta var ákveðin leið til þess að efla áhuga þeirra á náminu – að halda þeim á tánum, ef svo má segja.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef við viljum að ungt fólk án atvinnu festist ekki í vítahring kerfisins, þá er nám eins og „Stökkpallur“ einn af mikilvægum þáttum í brjótast út úr þeim hring. Ég sannfærðist um þetta eftir einstaklingsviðtöl sem við tókum við þátttakendur. Þar var eins og rauður þráður að sjálfstraust þeirra hefði eflst til muna og þeir hefðu á einn eða annan hátt stækkað. Þessi vitnisburður var okkur mikið gleðiefni og færði okkur heim sanninn um að námið hefði skilað tilætluðum árangri. En ég dreg ekkert dul á að ég myndi vilja sjá þetta verkefni viðameira og stærra. En engu að síður er „Stökkpallur“ sannarlega góð byrjun,“ segir Sólveig Helgadóttir.