Þjónustuliðar - nýtt nám hjá SÍMEY

Í byrjun febrúar var hleypt af stokkunum nýju námi hjá SÍMEY sem kallast Þjónustuliðar. Um er að ræða grunnnám sem er ætlað fólki sem starfar t.d. við ræstingar, hreingerningar eða sótthreinsun eða í matvælaiðnaði. Námið er einingabært og byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Í byrjun febrúar var hleypt af stokkunum nýju námi hjá SÍMEY sem kallast Þjónustuliðar. Um er að ræða grunnnám sem er ætlað fólki sem starfar t.d. við ræstingar, hreingerningar eða sótthreinsun eða í matvælaiðnaði. Námið er einingabært og byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Ellefu einstaklingar stunda nú þetta nám hjá SÍMEY og eru þeir skjólstæðingar verkefnisins „Atvinna með stuðningi“, sem áður var undir hatti Akureyrarbæjar en hefur nú flust til Vinnumálastofnunar. Eftir sem áður hefur Hulda Steingrímsdóttir yfirumsjón með „Atvinna með stuðningi“.

Helgi Þ. Svavarson verkefnastjóri heldur utanum námið hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Hann segir að sambærilegt nám hafi ekki verið áður í boði hjá SÍMEY og hann segist ekki vita til þess að það hafi yfirleitt verið í boði hér á landi. „Ég tel að reynslan af þessu námi, það sem af er, sé mjög góð. Nokkrir af þeim nemendum sem eru í þessu námi hjá okkur eru á vinnumarkaði en aðrir ekki. Við förum í fjölmargt sem nýtist hverjum og einum, t.d. líkamsbeitingu og sjálfstyrkingu og þessa dagana er farið með nemendum í gegnum meðferð matvæla, smit og hreinlæti. Síðar förum við t.d. í skyndihjálp og öryggismál. Stór hluti af náminu er verklegur og mér sýnist að nemendur séu mjög áhugasamir um það sem við erum að kenna þeim,“ segir Helgi.

Um er að ræða tíu vikna nám og mæta nemendur tvisvar í viku. Samtals eru kennslustundirnar 40 og lýkur náminu í apríl.