Taka þátt í Nám er tækifæri í samstarfi við Vinnumálastofnun

SÍMEY hefur boðið upp á ýmis námskeið fyrir fólk í atvinnuleit. Í samstarfi við Vinnumálastofnun verður á næstu vikum settur aukinn þungi í nám fyrir fólk sem er án atvinnu. Þetta er eitt af úrræðum stjórnvalda til þess að bregðast við því mikla atvinnuleysi sem nú er víða um land vegna Covid 19 faraldursins.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að góð reynsla hafi fengist af starfsleitarstofum sem SÍMEY bauð upp á sl. haust í samstarfi við Vinnumálastofnun. Þar fá þátttakendur aðstoð við að greina og skrá styrkleika sína og þekkingu, reynslu og menntun í ferilskrá. Valgeir segir að reynslan af þessu síðastliðið haust hafi verið mjög jákvæð og góð og þetta úrræði verði áfram í boði á næstu vikum. Það sama megi segja um námskeiðið Betri skilningur – bætt samskipti sem Kjartan Sigurðsson ráðgjafi hjá SÍMEY hefur kennt.

Valgeir segir að breytingin frá því sl. haust verði sú að starfsleitarstofurnar verði núna á vorönninni að hluta til eða að öllu leyti veflægar. Hann bætir því við að til standi í þessum mánuði að bjóða upp á Betri skilning – bætt samskipti námskeiðið á ensku. Það hafi verið prófað sl. haust og gefið góða raun.

Nám er tækifæri
Nám er tækifæri
er heiti á námsátaki Vinnumálastofnunar 2021-2022 og taka símenntunarmistöðvar um allt land þátt í því. Þær skipuleggja og kenna námsleiðir af ýmsum toga fyrir fólk í atvinnuleit. Fólki stendur til boða styrkur til þess að sækja starfstengd námskeið sem nemur 75% af námskeiðsgjaldinu, að hámarki 80 þúsund krónur. „Við erum að fara af stað með þrjár námsleiðir í þessu átaki fyrir atvinnuleitendur. Í fyrsta lagi verðum við með Íslenskt mál og samfélag, þar sem fjallað er um íslenskt samfélag frá ýmsum hliðum auk íslenskukennslu. Einnig bjóðum við upp á Stökkpall, sem er nám ætlað ungu fólki þar sem áherslan er m.a. á sjálfsmat og markmiðasetningu, kynningu á vinnumarkaðnum og möguleikum til náms. Þriðja námsúrræðið sem við ætlum að bjóða fólki upp á í þessu námsátaki Vinnumálastofnunar er Sterkari starfsmaður, sem verður blanda af stað- og fjarnámi. Hér er um að ræða upplýsingatækninám í bland við samskiptaþjálfun og sjálfsuppbyggingu,“ segir Valgeir. Að hámarki verða um tuttugu manns á hverjum námshópi og gerir Valgeir ráð fyrir að náminu ljúki  öðru hvoru megin við páska.  Vinnumálatofnun mun sjá um að bóka fólk á námsbrautirnar.

Valgeir segir að með þessum þremur námsbrautum vilji SÍMEY leggja námsátaki Vinnumálastofnunar lið og vilji sé til þess af hálfu SÍMEY að gera mun meira í þesum efnum, fáist til þess fjármagn.

Til viðbótar við framangreint nefnir Valgeir að frá sl. hausti sé í gildi samningur milli SÍMEY og Vinnumálastofnunar um náms- og starfsráðgjöf fyrir fólk í atvinnuleit.

„Þá má nefna að það hefur verið mikil aðsókn á íslenskunámskeið fyrir fólk með annað tungumál en íslensku og greiðir Vinnumálastofnun fyrir fyrstu tvö námskeiðin sem það tekur,“ segir Valgeir.