Sýning á verkum nemenda í Fræðslu í formi í lit

Fjölbreytnin ræður svo sannarlega ríkjum í þeirri myndlist sem fólki gefst kostur á að skoða á yfirl…
Fjölbreytnin ræður svo sannarlega ríkjum í þeirri myndlist sem fólki gefst kostur á að skoða á yfirlitssýningu nemenda í Fræðslu í formi og lit í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg.

Fræðsla í formi og lit hefur í mörg ár verið einn af föstum liðum í starfi SÍMEY. Námið byggir á námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og hefur það að markmiði að auka færni þátttakenda í myndlist, listasögu og skapandi starfi.

Í lýsingu á náminu á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins segir m.a.:

Í náminu er lögð áhersla á að námsmenn efli færni sína og sjálfstraust, þjálfi sjónræna athygli sína og persónulega tjáningu á tvívíðan flöt ásamt því að tileinka sér margskonar aðferðir við myndsköpun. Tilgangur námsins er að stuðla að jákvæðu viðhorfi til náms á sviði lista og auðvelda námsmönnum að örva og nýta skapandi hæfileika sína og koma auga á ný tækifæri í framtíðinni. Jafnframt er áhersla lögð á almenna starfshæfni námsmanna á fyrsta þrepi eins og hún hefur verið skilgreind hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið er ætlað þeim sem hafa áhuga á skapandi starfi, hugmyndavinnu, myndgerð, framsetningu myndlistar og myndlistarsögu. Það hentar þeim sem vilja nýta námið til að styrkja stöðu á vinnumarkaði í fjölbreyttum atvinnugreinum list- og verkgreina sem og þeim sem vilja nýta það sem grunn að áframhaldandi námi. Námið er 432 klukkustundir. Mögulegt er að meta námið til 21 einingar á framhaldsskólastigi.

Í vetur hafa tveir þaulreyndir kennarar og myndlistarmenn miðlað þekkingu sinni og reynslu til nemenda í Fræðslu í formi og lit í SÍMEY, Guðmundur Ármann og Dagrún Matthíasdóttir.

Nemendur þeirra í vetur hafa verið Agnieszka Joanna Kujawska, Anna Maria Rudnicka-Ostrowska, Guðrún Ásgerður Steingrímsdóttir, Heiðný Helga Stefánsdóttir, Hulda Ellý Jónsdóttir, Sigurgeir Kristjánsson og Stefán Atli Arnarson.

Eins og jafnan áður eru núna til sýnis í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri nokkrar af myndum sem nemendur hafa unnið í vetur í Fræðslu í formi og lit.