Sýning á verkum nemenda í Fræðslu, formi og lit

Kennararnir tveir með þremur af sex nemendum sínum við opnun sýningarinnar í SÍMEY í dag. Frá vinstr…
Kennararnir tveir með þremur af sex nemendum sínum við opnun sýningarinnar í SÍMEY í dag. Frá vinstri: Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Guðrún Á. Steingrímsdóttir, Eygló Jóhannesdóttir, Sólveig Hólm Guðmundsdóttir og Dagrún Matthíasdóttir.

Punkturinn yfir i-ið hjá nemendum í myndlistarnáminu Fræðsla í formi og lit er sýning á verkum sem þeir hafa unnið í vetur. Sýningin var opnuð í dag í Gallerí SÍMEY og munu verkin prýða veggi húsnæðis SÍMEY við Þórsstíg 4 á Akureyri til 6. júní nk. Allir eru velkomnir á sýninguna á opnunartíma SÍMEY.

Fræðsla í formi og lit á sér langa sögu í starfi SÍMEY. Markmið með náminu er m.a. að veita fólki tækifæri til þess að styrkja færni sína í myndlist, listasögu og skapandi starfi, örva og nýta skapandi hæfileika sína og koma auga á ný tækifæri. Meðal þess sem farið hefur verið í er teikning, lita- og formfræði, hlutföll í mannslíkamanum og saga myndlistar. Kennari á haustönn var Guðmundur Ármann Sigurjónsson en á vorönninni kenndi Dagrún Matthíasdóttir.

Á sýningunni í Galleríi SÍMEY sýna verk sín: Dagný Rut Hjaltadóttir, Eygló Jóhannesdóttir, Guðbjörg Alda Sigurðardóttir, Guðrún Á. Steingrímsdóttir, Sara Magda Kwiwk og Sólveig Hólm Guðmundsdóttir.