Sjötíu manns brautskráðust frá SÍMEY

Útskriftartertan var að sjálfsögðu á sínum stað. Myndir: Kristín Björk Gunnarsdóttir.
Útskriftartertan var að sjálfsögðu á sínum stað. Myndir: Kristín Björk Gunnarsdóttir.

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar útskrifaði í gær sjötíu manns af ýmsum námsbrautum; Stuðningsfulltrúabrú, „Help Start“ enskunámi, opinni málmsuðusmiðju, opinni FAB-Lab smiðju, Grunnmenntaskólanum sem hluta af fisktækninámi, Skrefinu – íslenskunámi og raunfærnimati iðngreina og raunfærnimati fisktækni. Einnig voru útskrifaðir nemendur úr 75 klukkustunda bókhaldsnámi sem unnið hefur verið  með Tölvufræðslunni og úr Skrifstofuskólanum,160 klukkustunda námi í dagskóla.

Við upphaf og lok brautskráningarinnar spilaði og söng Heimir Bjarni Ingimarsson, tónlistarmaður og -kennari.

Ester Anna Eiríksdóttir, sem stundaði nám í Skrifstofuskólanum, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema.

Uppskerudagur
Áður en nemendur voru brautskráðir flutti Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, ávarp. Hann sagði að brautskráningin væri uppskera árangurs, nemendur hafi lagt á sig mikla vinnu, farið út fyrir þægindarammann „og dagurinn í dag gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga. Þið hafið bætt við ykkur þekkingu  og öðlast hæfni og getu til að að takast á við ný verkefni og án efa skapað ykkur ný tækifæri í lífinu.“

Valgeir gat þess að það gæti verið mikið átak að hefja nám eftir hlé, slíkt krefðist dugnaðar og seiglu. Komast þyrfti yfir huglæga þröskulda og  endurskipuleggja ýmislegt. „Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi er þessi dagur líka afar mikilvægur en á honum kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur,“ sagði Valgeir.

Hann sagði að aðlögunarhæfni hvers og eins væri mikilvægur eiginleiki á vinnumarkaði. Fólk á öllum aldri þyrfti að takast á við ýmsar fyrirsjáanlegar og ófyrirsjáanlegar breytingar á náms- og starfsferli sínum. Rannsóknir bentu til þess að aðlögunarhæfni væri lykilhugtak og -þáttur í viðhorfi og hegðun einstaklinga í óvæntum aðstæðum og breytingum. Fleiri færniþættir skipti einnig máli, sagði Valgeir, og nefndi til sögunnar almenna starfshæfni sem sé sú grunnfærni sem einstaklingurinn þurfi á að halda til að ná árangri á vinnumarkaði. Í þessu sambandi væri einnig vert að nafna samvinnu, skilning á færnieflingu, jafréttisvitund, árangursrík samskipti og skipulag og áætlanir.

Valgeir nefndi hraðar tækniframfarir sem leiði til breyttra starfa á vinnumarkaði, upplýsinga- og snjalltæknin sé stöðugt að breytast, það sama sé uppi á tengingnum í samgöngum og í raun í öllum krókum og kimum samfélagsins. Allt þetta sagði Valgeir að kallaði á aukna færni fólks í starfi, að auka stöðugt við sína tæknikunnáttu og virkja sköpunargáfuna. Hann sagði að breytingar þyrftu ekki að vera af hinu vonda en svo væri það hin hliðin á peningnum hvernig best væri að takast á við breytingarnar. Sí- og endurmenntun væri í þessu ljósi mikilvægur hluti af lífi fólks, að byggja upp hæfni þess á vinnumarkaði til þess að takast á við breytingar morgundagsins.

„Nám hefur gjarnan mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, uppgötvun nýrra hæfileika sem maður hélt að væru ekki til staðar eða horfnir. Viðhorf gagnvart starfsumhvefi breytist, öryggi og víðsýni tekur völdin í huga einstaklinga. Ný tengsl myndast fólks á milli og sá þáttur að læra af öðrum skal ekki vanmeta í námi. Ekki er óalgengt að við ýtum draumum okkar til hliðar vegna álags í persónulegu lífi eða vegna starfskrafna. Það getur verið erfitt að finna rétta tímann og erfitt að koma sér af stað. En löngunin til að fara út fyrir þægindahringinn getur verið sterk og breytir lífi okkar. Þið getið tekið ykkur sjálf til fyrirmyndar það er ekki sjálfgefið að ná þeim áfanga sem þið hafið náð hér í dag,“ sagði Valgeir og beindi orðum sínum til útskriftarnema.

Mikill vöxtur á átján árum
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar er nú á sínu átjánda starfsári. Á þessum árum hafa orðið miklar breytingar í starfseminni og hún vaxið mjög. Á síðasta ári voru þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu SÍMEY um 4.700 manns, sem er umtalsvert á svæði sem telur um 23.000 manns. Viðtöl í náms- og starfsráðgjöf voru á áttunda hundrað og staðnar einingar í raunfærnimati voru um 2.300 hjá um 50 einstaklingum.

„Við höfum verið leiðandi í samstarfi við atvinnulíf varðandi ýmis þróunarverkefni, fjölmenningu, aðstoðað flóttafólk og sinnt fullorðinsfræðslu fatlaðra. Verkefni okkar eru á víðum grunni, stór hluti starfseminnar er að bjóða fullorðnu fólki upp á vottaðar námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, almennt námskeiðahald fyrir samfélagið og einnig klæðskerasniðnar lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir í formi námskeiðahalds, fyrirtækjaskóla og mannauðsráðgjafar. Mikill vöxtur hefur verið í samstarfi við atvinnulífið um sérsniðin námskeið og einnig hefur mesta umfang íslensku sem annað mál frá upphafi verið á árinu 2018,“ sagði Valgeir.

Hann sagðist telja að í fyrirsjáanlegri framtíð verði  hlutverk símenntunarmiðstöðvanna í auknum mæli að gera starfsþróun og hæfni markhópsins sýnilegri. Það verði m.a. gert með hæfnigreiningum,  þróun á nýju raunfærnimati í tengslum við störf fólks og uppbyggingu á fyrirtækjaskóla. Hlutverk náms- og starfsráðgjafar verður að mati Valgeirs einnig mikilvægt til að aðstoða fólk við að fóta sig á nýjum leiðum. Einnig muni dreifnám og þróun nýrra valkosta í því samhengi verða mun mikilvægara. Eitt af veigamestu hlutverkum SÍMEY telur Valgeir að verði þau svið samfélagsins þar sem þörf sé á aukinni hæfniuppbyggingu vegna breytinga, t.d. í ferðaþjónstu, sjávarútvegi og samgöngum.

Um áramótin verður sú breyting á starfsmannahópi SÍMEY að Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnastjóri SÍMEY á Dalvík, lætur af störfum. Svanfríður Inga hefur m.a. unnið að uppbyggingu öflugs starfs SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð og komið að hverskyns verkefnum, t.d. hæfnigreiningum, raunfærnimati, uppbyggingu fisktæknináms o.fl. „Ég vil þakka henni einlæglega fyrir mikilvægt framlag til framhaldsfræðslunnar síðastliðin tvö ár,“ sagði Valgeir.  

Tólf starfsmenn eru hjá SÍMEY, auk um 140 verktaka af ýmsum toga.