Mikil aðsókn að íslenskunámskeiðum

Nú eru kennd samtals fimmtán íslenskunámskeið á vegum SÍMEY á Akureyri og Dalvík. Hér er Sólveig Jón…
Nú eru kennd samtals fimmtán íslenskunámskeið á vegum SÍMEY á Akureyri og Dalvík. Hér er Sólveig Jónsdóttir að kenna nemendum á þriðja stigi.

Til fjölda ára hefur Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar boðið upp á nám í íslensku sem annað tungumál. Svo er einnig núna á haustönn og hefur aðsóknin sjaldan verið meiri. Nú eru fimmtán námskeið í gangi, þrettán kennd á Akureyri en tvö á Dalvík. Mörg námskeiðanna eru kennd í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri en einnig eru íslenskunámskeið á vinnustöðum sem viðkomandi fyrirtæki og stofnanir kosta að fullu fyrir sína starfsmenn. En algengast er þó að þátttakendur á námskeiðunum fái 50-75% af kostnaði við íslenskunámskeiðin endurgreidd frá sínu stéttarfélagi. Fólk þarf að hafa verið á íslenskum vinnumarkaði í einn mánuð til þess að eiga möguleika á niðurgreiðslu námskeiðsgjalda. Núna býður SÍMEY upp á námskeið frá 1. og upp í 4. stig sem þýðir að á öðru stigi er byggt ofan á það sem fólk lærði á því fyrsta og svo koll af kolli.
Á dögunum var litið inn á íslenskunámskeið á þriðja stigi í SÍMEY. Að þessu sinni voru sex nemendur mættir og voru þeir að æfa sig að mynda setningar.

Gefandi og skemmtilegt
Sólveig Jónsdóttir, einn af kennurunum á íslenskunámskeiðunum, hefur kennt útlendingum íslensku á annan áratug og er þetta fjórða árið sem hún vinnur eingöngu við að kenna slík námskeið í SÍMEY, auk þess að bjóða upp á einkatíma í íslensku á Akureyri og í Mývatnssveit. Eitt af námskeiðunum sem hún hefur kennt er íslenskunámskeið fyrir útlendinga sem Zontaklúbbur Akureyrar kostar. Þá hefur hún verið með sérhæfð lestrarnámskeið í íslensku.

Sólveig segir að vissulega gangi fólki misjafnlega vel að glíma við framburðinn í íslensku en almennt leggi hún mest upp úr talmálinu, að fólk geti tjáð sig og þori að tala. Hún segir að hvert námskeið sé 40 námsstundir  en í raun þyrftu þau að vera lengri og æskilegt væri að geta boðið upp á mismunandi námskeið á hverju þrepi. Af nægu sé að taka og aldrei sé góð vísa of oft kveðin. Almennt séu þátttakendur á námskeiðunum sammála um að íslenskan sé erfitt tungumál og því leggi hún áherslu á að fólk æfi sig á milli tíma, endurtekningar aftur og aftur séu gulls ígildi.

„Ég legg mikla áherslu á að fá fólk til að tjá sig frá upphafi og ég kenni strax í fyrsta tíma sögnina „að vera“ með persónufornöfnum. Námsefnið Íslenska á allra vörum 1 inniheldur nokkrar blaðsíður með myndum af sögnum og þar má fá orðaforða til að búa til setningar frá upphafi. Mjög fljótlega kenni ég þátíðina „ég var“ og stuttu síðar „að ætla“; þá hafa nemendur verkfæri til að búa til allskyns setningar um sjálfa sig, spurningar fyrir aðra, lýsingar á því hvað fólk er að aðhafast á myndum o.s.frv. Þarna notar fólk líka rétta málfræði - bara einfalda. Eftir fyrsta skiptið hefjast allir tímar á spurningum; hvað varstu að gera?,  hvað ætlarðu að gera?, hvað langar þig að gera?, hvað er hann að gera?... o.s.frv. Í upphafi hvers námskeiðs legg ég áherslu á við nemendur að þeir spyrji mig hvenær sem er um orð, setningar eða annað sem þá langar að læra og ég minni reglulega á þetta. Þarna gefst tækifæri til að ná sér í hagnýta þekkingu til að nota í daglegu lífi og fólk nýtir sér þetta óspart á námskeiðunum,“ segir Sólveig.

„Þessi kennsla er mjög gefandi og skemmtileg og ég nýt hennar. Að læra tungumál liggur afar mismunandi vel fyrir fólki og það á líka við um íslenskuna. Sumir eru ótrúlega næmir og fljótir að ná tökum á málinu, öðrum gengur það verr. En okkur Íslendingum hættir of mikið til að tala ensku við þetta fólk. Vilji það tala íslensku við okkur eigum við að sjálfsögðu að tala við það íslensku á móti en ekki skipta yfir í ensku,“ segir Sólveig.

Talmálið er snúið
Eva Cárdenes Armas er dýralæknir frá Las Palmas á Kanaríeyjum. Hún starfar sem eftirlitsdýralæknir hjá Matvælastofnun á Akureyri og sinnir lögboðnum eftirlitsstörfum á býlum og kjötskoðun í sláturhúsum. Eva segist fyrst hafa komið til Íslands fyrir mörgum árum og unnið sem sjálfboðaliði á Suðurlandi. Hafi þá heillast af landi og þjóð og leit í kringum sig með vinnu. Það gekk ekki þá og því fór hún aftur til Kanaríeyja. En árið 2012 bauðst henni vinna á Matvælastofnun á Akureyri og hingað kom hún og býr hér með manni sínum, sem einnig er spænskur, og tveggja ára syni þeirra. Eiginmaðurinn er verkfræðingur og starfar hjá þýsku fyrirtæki, verkefni sín vinnur hann að stærstum hluta í gegnum tölvu frá Akureyri. „Áður en ég kom aftur til Íslands starfaði ég um tíma sem dýralæknir á Kanaríeyjum en í efnahagskreppunni á Spáni missti ég eins og svo margir aðrir vinnuna og því var kærkomið að fá vinnu hér á Íslandi,“ segir Eva.

Eva er nú á þriðja íslenskunámskeiðinu í SÍMEY og einnig hefur hún annað slagið tekið einkatíma í íslensku. Hún segir afar mikilvægt að læra tungumálið, það sé grunnurinn að því að útlendingar sem hér búi geti af fullum krafti tekið þátt í samfélaginu, að ná tökum á tungumálinu rjúfi ákveðna einangrun. „Talmálið finnst mér erfitt og sömuleiðis er málfræðin mjög snúin. Ég get skilið einfaldan skrifaðan texta en á erfitt með að fylgjast með fréttum í ljósvakamiðlum. Í því flókna reglugerðarumhverfi sem ég starfa viðurkenni ég fúslega að þurfa oft að grípa til enskunnar. Í vinnunni tala ég því bæði íslensku og ensku,“ segir Eva.

Eva segir að sem stendur hafi fjölskyldan ekki áform um að flytja út aftur en sá dagur muni þó örugglega koma. En á Akureyri líði þeim vel og margt í íslensku samfélagi sé jákvætt. Til dæmis sé jafnrétti kynjanna mun meira hér á landi en á Spáni og það sama megi segja um réttindi ungra foreldra. Fæðingarorlof hér á landi sé umtalsvert lengra en í heimalandinu. „Húsakostur hér er mjög góður og húshitunarkostnaður er ekki hár. Við höfum vanist loftslaginu vel, vissulega erum við vön mun hlýrra loftslagi á Kanaríeyjum en þetta venst ágætlega hérna. Ég neita því ekki að mér fannst mjög skrítið þegar ég áttaði mig á því að hér á Íslandi eru lítil börn látin sofa úti í barnavagninum, þetta er nokkuð sem við myndum aldrei sjá á Spáni. Ef ég ætti að nefna eitt atriði sem mér finnst neikvætt við íslenskt samfélag væri það að ég upplifi að þjóðernishyggja sé að færast í aukana hér á landi. Með þessu er ég ekki að segja að ég finni fyrir rasisma á Íslandi en engu að síður hef ég þetta á tilfinningunni. Mér finnst hlutirnir hafa breyst töluvert í þessum efnum síðan ég hóf að starfa hér árið 2012,“ segir Eva Cárdenes Armas.

Frá Uganda til Akureyrar
Jackline Nafula er eins og og Eva á sínu þriðja íslenskunámskeiði í SÍMEY. Hún hefur búið á Akureyri í tæp tvö ár, síðan í ársbyrjun 2017, og starfar nú á veitingastaðnum Subway. Áður hafði hún unnið um tíma á Hamborgarafabrikkunni. Eins og Eva Cárdenes hafði Jackline komið áður til Íslands, hún var árið 2007 „au pair“ hjá systur sinni sem þá bjó í Reykjavík. Á þeim tíma kynntist hún íslenskum manni sem í dag er eiginmaður hennar. Sambandið á milli þeirra rofnaði raunar í sjö ár og á þeim tíma bjó Jackline í Uganda en þráðurinn slitnaði þó aldrei að fullu og árið 2016 giftu þau sig í Uganda. Í millitíðinni eignaðist Jackline son í Uganda, hann er núna tæplega sjö ára gamall og gengur í Lundarskóla á Akureyri. Fjölskyldan flutti til Íslands og unir hag sínum vel, hér á landi hyggst hún búa. Systir Jackline, sem hún var hjá sem „au pair“ fyrir meira en áratug, býr einnig á Akureyri.
„Það er að mínu mati afskaplega mikilvægt að læra íslenskuna. Auðvitað get ég talað ensku, það skilja hana vel flestir hér, en engu að síður skiptir öllu máli að ná tökum á tungumálinu, því hér ætlum við að búa. Íslenskan opnar ýmsa möguleika, t.d. gefur hún án nokkurs vafa meiri möguleika fyrir mig á vinnumarkaði. Ég hef m.a. löngun til þess að vinna í banka en geri mér grein fyrir því að forsenda þess er að læra tungumálið,“ segir Jackline Nafula.