Níutíu og sjö nemendur útskrifaðir

Frá útskriftinni í dag.
Frá útskriftinni í dag.

Haustönn í SÍMEY lauk formlega í dag með útskrift 97 nemenda. Athöfnin fór fram í húsnæði SÍMEY við Árstíg. Nemendurnir 97 útskrifuðust af eftirtöldum námsleiðum: Félagsliðabrú á Akureyri, Félagsliðabrú við utanverðan Eyjafjörð, Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, Skrifstofuskólinn - kvöldnám, Skrifstofuskólinn – dagnám, Sölu-, markaðs- og rekstrarnám við utanverðan Eyjafjörð (haldið á Dalvík), Menntastoðir í dagnámi, Fræðsla í formi og lit, Listasmiðja – málun, Listasmiðja – teiknun og Málmsuðusmiðja.

Um tónlistarflutning í upphafi og lok athafnar sáu þau Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir. Valgeir Blöndal Magnússon, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, stýrði útskriftinni í forföllum Erlu Bjargar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra. Ávörp fluttu Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og stjórnarmaður í SÍMEY, Jónasína Arnbjörnsdóttir, útskriftarnemandi í námsleiðinni Fræðsla í formi og lit og Dragan Pavlica, sem fór í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY árið 2010 í málaraiðn og í framhaldi af því tók hann bóklegar greinar í námi og þjálfun. Síðan lá leið hans í VMA þaðan sem hann lauk sveinsprófi og núna er hann í meistaraskólanum í málaraiðn. Dragan var í nóvember sl. útnefndur fyrirmyndarnemandi innan fullorðinsfræðslunnar á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Dragan fór í ávarpi sínu yfir námsferil sinn í SÍMEY og VMA og hvernig hann væri kominn á þann stað að vera nú í meistaraskólanum í málaraiðn.

Útskriftarnemar í dag sem lengst hafa stundað nám í SÍMEY hófu nám í byrjun síðasta árs og hafa því stundað nám í fjórar annir.

„Dagurinn í dag er uppskera árangurs, þið hafið lagt á ykkur mikla vinnu, farið út fyrir þægindarammann og dagurinn í dag gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga,“ sagði Valgeir Blöndal Magnússon í ávarpi sínu á útskriftinni í dag. „Þið hafið bætt við ykkur þekkingu  og öðlast hæfni og getu til að að takast á við ný verkefni og án efa skapað ykkur ný tækifæri í lífinu. Dagurinn í dag er líka dagur stoltsins. Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu. Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi þá er þessi dagur líka afar mikilvægur en á þessum degi kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur. Hugtakið ævimenntun er orðið tamt í notkun í umræðu um menntamál en eins og orðið felur í sér þá er öflun nýrrar þekkingar og aðlögun að því hluti af lífi okkar. Þetta er breytt heimsmynd frá því fyrir einhverjum árum og áratugum, þegar fólk lauk námi upp úr 20 ára aldri eða viðhélst í sama starfi alla ævi. Þekkingarleit og öflun nýrrar reynslu á vinnumarkaði er orðin eðlileg krafa í dag. Í umhverfi okkar eru hraðar breytingar, hvort sem það tengist auknum kröfum um tækniþekkingu, samskiptagreind, fjölmenningu eða þekkingaröflun.  Dæmi um þetta er sá veldisvöxtur sem á sér stað í tölvu- og upplýsingatækni. Nám hefur gjarnan líka mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, uppgötvun nýrra hæfileika sem maður hélt að væru ekki til staðar eða horfnir er afar jákvæð og hefur sterk áhrif á einstaklinga. Viðhorf gagnvart starfsumhvefi breytist, öryggi og viðsýni tekur völdin í huga einstaklinga. Ný tengsl myndast fólks á milli og sá þáttur að læra af öðrum skal ekki vanmeta í námi. Öll eigum við okkur drauma eða við eigum að eiga okkur drauma. Ekki er óalgengt að við ýtum draumum okkar til hliðar vegna álags í persónulegu lífi eða vegna starfskrafna. Það getur verið erfitt að finna rétta tímann og erfitt að koma sér af stað. Af hverju ætti ég að vera að standa í þessu? En löngunin til að fara út fyrir þægindahringinn getur verið sterk og breytir lífi okkar. Þið getið tekið ykkur sjálf til fyrirmyndar, það er ekki sjálfgefið að ná þessum áfanga sem þið hafið náð hér í dag,“ sagði Valgeir Blöndal Magnússon.

Valgeir nefndi að á þessu ári hafi SÍMEY fagnað 15 ára afmæli. Á þessum 15 árum hafi orðið markverðar breytingar í starfseminni og hún vaxið verulega. Á síðasta ári sagði Valgeir að nemendastundir hafi verið 120.000 og þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustuna 3600 manns. Nú séuu 11 starfsmenn hjá SÍMEY og á ársgrunni starfi þar að auki allt að 100 verktakar.  

 „Verkefni okkar eru á víðum grunni. Stór hluti starfseminnar er að bjóða fullorðnu fólki upp á vottaðar námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, almennt námskeiðahald fyrir samfélagið og einnig klæðskerasniðnar lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir í formi námskeiðahalds og mannauðsráðgjafar. Við bjóðum upp á íslensku fyrir útlendinga, námskeiðahald fyrir Fjömennt, sem er fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða, og sinnum þróunarstarfi af ýmsum toga og margt fleira.
Framhaldsfræðslukerfið er ungt í árum á Íslandi en mikill vöxtur hefur verið innan þess á síðustu árum og er hér um að ræða 5. stoð menntakerfisins, reikna má að um 15.000 nemendur stundi nám innan þessa kerfis á landsvísu, til samanburðar er það um helmingur af nemendafjölda framhaldsskólakerfisins. Þessi hópur er afar dýrmætur fyrir samfélag og atvinnulíf, kemur með dýrmæta reynslu úr sinni starfsreynslu og persónulega lífi, tvíeflist gjarnan í námi og kemur með enn dýrmætari þekkingu og reynslu út í atvinnulífið og sitt samfélag. Þessi hópur er að hækka menntunarstig þjóðarinnar og er ég að tala um ykkur, kæru útskriftarnemendur, þið eruð að hækka menntunarstig þjóðarinnar og það skiptir miklu máli,“ sagði Valgeir.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, sagði m.a. í ávarpi sínu að 21. öldin væri öld upplýsingarinnar. „Við getum litið svo á að við séum í raun að endurlifa upplýsinguna sem var hér á 17. og 18. öld. Þið eruð hluti af þekkingarsamfélaginu,“ sagði Eyjólfur. Hann sagðist að undanförnu hafa velt tímanum fyrir sér. „Tíminn líður hratt og eftir því sem við eldumst finnst okkur tíminn líða hraðar. Þið hafið varið tíma ykkar mjög vel með því að afla þeirrar þekkingar sem þið hafið aflað hér. Þið skulið halda áfram að nýta tímann ykkar vel því að í nútímanum er í raun bara ein auðlind sem þið fáið ekki tækifæri til að nýta aftur. Það er tíminn. Hann er það mikilvægasta sem þið eigið. Nú hafið þið þekkingu og færni  til þess að nýta tímann eins og mögulegt er. Notið tímann ávallt á sem hagkvæmasta og besta hátt. Ég get trútt um talað því ég á það til að gleyma mér stundum í vinnu. Það að vinna fjórtán tíma á sólarhring er ekki að nýta tímann vel. Og það að vinna sjö daga vikunnar er heldur ekki að nýta tímann vel. Það að nota tímann með vinum og ástvinum til jafns við þá vinnu sem við vinnum á hverjum tíma er hins vegar góð nýting á tímanum,“ sagði Eyjólfur.

Jónasína Arnbjörnsdóttir, útskriftarnemandi í námsleiðinni Fræðsla í formi og lit, rifjaði upp að hún hafi ákveðið að drífa sig í nám í SÍMEY þegar hún sá auglýsingu haustið 2013 um námskeið þar sem Bryndís Arnardóttir – Billa var kennari. Síðar hafi Guðmundur Ármann komið líka inn í kennsluna.  Bæði hafi þau reynst nemendum sérlega vel, enda með gríðarlega reynslu í myndlistarkennslu. „Öll höfum við þörf fyrir að tjá okkur með einhverjum hætti. Sumir í leiklist, aðrir í söng og dansi. Hér í dag er staddur hópur sem kaus að skrá sig í málaralistina, stökk út í djúpu laugina, ef svo má segja. Sumir án nokkurrar reynslu af slíku, aðrir örlitla,“ sagði Jónasína og bætti við að þegar upp væri staðið hafi þessi tími í SÍMEY verið sér og fleiri nemendum algjörlega ómetanlegur. Hún sagðist vilja hvetja alla sem hefðu áhuga og möguleika til að sleppa ekki því tækifæri að setjast á skólabekk og afla sér aukinnar þekkingar og færni.

Sem fyrr segir voru 97 útskrifaðir frá SÍMEY í dag, en hluti þeirra gat ekki verið viðstaddur útskriftina. r má sjá nokkrar myndir frá útskriftinni í dag. Í lok athafnarinnar setti hluti nemendanna upp útskriftarhúfurnar.