SÍMEY fær European Quality Mark (EQM+) gæðavottun

Starfsfólk SÍMEY og Hildur Bettý Kristjánsdóttir starfsmaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins að lok…
Starfsfólk SÍMEY og Hildur Bettý Kristjánsdóttir starfsmaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins að lokinni afhendingu staðfestingarskjals á EQM+ gæðavottuninni.

SÍMEY fékk í dag afhenta staðfestingu á svokallaðri EQM+ gæðavottun og tekur hún til hönnunar, þróunar og umsýslu náms í fullorðinsfræðslu, náms og starfsráðgjafar og raunfærnimats. Vottunin er til þriggja ára og gildir til loka október 2021. SÍMEY fékk árið 2012 EQM gæðavottun fyrir fræðslustarf en þessi endurnýjaða vottun er víðtækari og tekur, sem fyrr segir, einnig til náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats.

EQM stendur fyrir European Quality Mark og er Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vottunaraðili hér á landi. Matsferlið hjá SÍMEY, sem hófst á síðastliðnu ári, var í höndum Katrínar Frímannsdóttur hjá fyrirtækinu Vaxandi – Ráðgjöf.

EQM+ er evrópskt, gegnsætt matsferli fyrir fræðsluaðila sem er hannað til þess að mæta auknum kröfum um gagnsemi náms og gæðaviðmið fyrir fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis. Meðal annars er horft til gæða þjónustunnar sem er veitt, innri gæðastjórnunar, verklagsreglna og hvernig núverandi starfshættir ríma við viðurkennd gæðaviðmið.

Hildur Bettý Kristjánsdóttir, starfsmaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, afhenti Valgeiri B. Magnússyni, framkvæmdastjóra SÍMEY, innrammað skjal til staðfestingar á EQM+ vottuninni. Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, var í beinu sambandi við SÍMEY í gegnum fjarfundabúnað. Hann óskaði starfsfólki SÍMEY til hamingju með þennan áfanga. Að baki væri víðtækt matsferli og niðurstaðan væri til marks um mikið og gott starf SÍMEY.

Valgeir B. Magnússon sagði það hafa verið gagnlegt og lærdómsríkt fyrir SÍMEY að fara í gegnum matsferlið. Alltaf sé gott að fara í slíka sjálfsskoðun á starfinu. Hann sagði vottunina vera staðfestingu á gæðum starfs SÍMEY og það sé í senn ánægjulegt og mikilvægt.

Hér eru myndir af starfsfólki SÍMEY ásamt Hildi Bettý Kristjánsdóttur á meðan á fjarfundinum með Sveini Aðalsteinssyni stóð og síðan á eftir í hríðarmuggunni utan húss.