SÍMEY fær endurnýjaða viðurkenningu fræðsluaðila til næstu þriggja ára

Í liðinni þessari viku fékk SÍMEY endurnýjaða viðurkenningu fræðsluaðila til næstu þriggja ára.

Allir fræðsluaðilar sem hafa framhaldsfræðslu á sinni könnu þurfa að sækja um á þriggja ára fresti að fá viðurkenningu yfirvalda menntamála á starfi sínu til að annast raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf og standa fyrir námskeiðahaldi. Allar menntastofnanir, þ.m.t. SÍMEY, þurfa að uppfylla ákvæði laga og reglugerða um framhaldsfræðslu frá 2010 og 2011.

Í viðurkenningu Menntamálastofnunar, sem sjá má hér til hliðar, kemur m.a. fram að sérstaklega sé horft til kennslu og námskeiðahalds, skipulags náms og umsjónar með því, námskrár eða námslýsinga, hæfni með tilliti til þekkingar og reynslu, fjárhagsmálefna, trygginga og tilvist gæðakerfis með áherslu á nám fullorðinna.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir mikilvægt að fá slíka staðfestingu á starfsemi miðstöðvarinnar. „Þetta er vottun á okkar starfsemi, að hún uppfylli allar kröfur og lög um framhaldsfræðslu. Í þessu felst að það eru gerðar ríkar kröfur um m.a. húsnæði og aðstöðu, rekstur og áætlanir til næstu ára, námskrár, gæðakerfi og fjölmargt annað. Með staðfestri vottun á okkar starfsemi fáum við fjármagn frá stjórnvöldum og Fræðslusjóði auk þess sem við höfum aðgang að Rannís,“ segir Valgeir.