SÍMEY býður upp á raunfærnimat í matvælagreinum í nóvember

Raunfærnimatið í matvælagreinum er núna í nóvember og einnig er opið fyrir umsóknir í þessum mánuði …
Raunfærnimatið í matvælagreinum er núna í nóvember og einnig er opið fyrir umsóknir í þessum mánuði um nám á vorönn 2024 í VMA í matartækni, matreiðslu og framreiðslu.

Núna í nóvember býður SÍMEY upp á raunfærnimat í matvælagreinum – matreiðslu, matartækni og framreiðslu. Á sama tíma er vert að benda á að VMA hefur opnað fyrir umsóknir um nám á vorönn 2024 í þessum þremur greinum á matvæla- og ferðamálabraut skólans. Með því að fara í gegnum raunfærnimat hefur fólk sem lengi hefur starfað í matreiðslu eða framreiðslu möguleika á því að komast inn í umrætt nám í VMA, kjósi það svo.

Til upprifjunar skal þess getið að raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum, búsetu erlendis og fjölskyldulífi.

Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Það gerir færni og þekkingu sýnilega með því að meta hana á móti formlegu námi eða kröfum atvinnulífsins.

Raunfærnimat er fyrir 23 ára og eldri sem hafa a.m.k þriggja ára starfsreynslu úr því starfi sem meta skal. Raunfærnimat er ætlað þeim sem hafa litla, formlega menntun. 

Hér er skráning í raunfærnimatið.

Á vorönn 2024 býður Verkmenntaskólinn á Akureyri upp á nám í 2. bekk í matreiðslu og framreiðslu og einnig er ætlunin að nýr námshópur hefji lotunám í matartækni. Nám í þessum greinum, sem allar eru undir braut matvæla- og ferðagreina í VMA, er háð því að nægilega margir skrái sig í það. Í frétt á vef VMA kemur fram að þeim sem hafi starfsreynslu í þessum greinum sé bent á þann möguleika að fara í raunfærnimat eins og SÍMEY býður nú upp á.

Innritun í nám á vorönn 2024 í VMA stendur til 30. nóvember nk.