SÍMEY býður upp á nám í „Lean Management“ í haust – kynningarfundur föstudaginn 1. júní

Lean Management er ákveðin hugsun í starfsemi og stjórnun fyrirtækja sem verður farið í á námskeiðum…
Lean Management er ákveðin hugsun í starfsemi og stjórnun fyrirtækja sem verður farið í á námskeiðum í SÍMEY í haust fyrir annars vegar sérfræðinga og hins vegar stjórnendur.

Næstkomandi föstudag, 1. júní, kl. 12:00-12:40 heldur Pétur Arason rekstrarverkfræðingur og stofnandi og eigandi fyrirtækisins Manino kynningu í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri á „Lean Management“, sem stendur fyrir straumlínustjórnun og er líklega ein útbreiddasta stjórnunaraðferðin í dag. Núna á vormisseri hefur Pétur verið með námskeið í SÍMEY um „Lean“ og lýkur því 20. júní nk. Í haust er á dagskrá að halda aftur slík námskeið í SÍMEY, ef næg þátttaka fæst, í samvinnu við Manino, annars vegar fyrir sérfræðinga og hins vegar fyrir stjórnendur.

Pétur Arason hefur í mörg ár sérhæft sig í fyrirtækjaráðgjöf og kennslu og þýtt fræðibækur yfir á íslensku. Hann hefur leitt stefnumótun fyrirtækja, stýrt breytingaverkefnum hjá fyrirtækjum og síðast en ekki síst innleitt „Lean Management“ eða straumlínustjórnun í atvinnulífinu, bæði hér á landi og erlendis. Meðal þeirra bóka sem hann hefur þýtt er bók Niklas Modig og Par Ahlrström, „This is Lean“.

Hvað er „Lean“?
Í stuttu máli má segja að „Lean Management“ eða straumlínustjórnun beini sjónum sínum fyrst og fremst að virðissköpun heildarinnar og því virði sem hún skapar fyrir sína viðskiptavini.

Þessi aðferðafræði er ekki alveg ný af nálinni. Hana má rekja aftur til útgáfu bókarinnar The Machine That Changed The World, sem gefin var út 1990 af þeim James P. Womack, Daniel T. Jones og Daniel Roos. Bókin var skrifuð í kjölfar rannsókna þeirra á framtíð bandarískra bílaframleiðenda sem á þeim tíma áttu í samkeppni við japönsk framleiðslufyrirtæki sem sóttu hart að bandaríska bílamarkaðinum með nýstárlegum stjórnunarháttum. Sex árum síðar sendu sömu höfundar frá sér aðra bók sem ber nafnið Lean thinking; Banish waste and create wealth in your corporation. Með henni varð til nokkuð vel skilgreind hugmyndafræði tengd rekstrarstjórnun.

Einn af þeim þáttum sem þessi hugmyndafræði tekur til er að vinna gegn sóun í rekstri fyrirtækja, hvort sem litið er til framleiðslu eða þeirrar þjónustu sem fyrirtækin veita. Þessu tengt er ójafnvægi innan hóps starfsfólks fyrirtækis, sem skapast af því að ekki er nægilega vel hugað að daglegu skipulagi, er aftur leiðir til þess að sumir úr hópi starfsmanna sinna of mörgum verkefnum en aðrir of fáum. Ein af grunnhugsunum í straumlínustjórnun er að hafa þarfir viðskiptavina fyrirtækjanna ætíð að leiðarljósi.

Pétur Arason segir að grunnhugmyndafræðin í „Lean Management“ sé að nýta hæfileika starfsmannanna sem best og ætíð sé þjónustan við viðskiptavinina höfð að leiðarljósi. Hann segir að hér sé fyrst og fremst um að ræða ákveðinn hugsunarhátt sem starfsfólk og stjórnendur fyrirtækja tileinki sér, unnið sé með ákveðna menningu. „Það sem passar einu fyrirtæki þarf ekki endilega að smellpassa fyrir annað fyrirtæki, hér er ekki um að ræða „copy/paste“ á milli fyrirtækja. Þetta er ákveðin hugsun eða aðferðafræði sem upprunalega kemur frá bílaframleiðandanum Toyota sem hafði fókusinn á starfsfólkið. Ég hef unnið með þetta í um fimmtán ár en er á hverjum degi að læra eitthvað nýtt í þessu,“ segir Pétur Arason.