SÍMEY brautskráði 127 nemendur

Gaman að fela sig í brautskráningarhúfu mömmu!
Gaman að fela sig í brautskráningarhúfu mömmu!

Í dag voru brautskráðir 127 þátttakendur úr ýmsum námsleiðum hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Brautskráningin var í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri.

Námsleiðirnir sem brautskráningarnemarnir 127 luku eru „Menntastoðir“- kvöldnám, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, félagsliðabrú, „Help start“-grunnur og framhaldshópur, sölu- markaðs og rekstrarnám, Fab Lab - opin smiðja - hópur 1 og 2, textílsmiðja, opin smiðja – málmsuðusmiðja, alvöru bóhaldsnámskeið - 75 klst. nám sem þjálfar þátttakendur í nútímabókhaldi - unnið í samstarfi við Tölvufræðsluna og „Mannlegi millistjórnandinn“.

Fyrir og eftir brautskráninguna í dag spilaði og söng fyrir gesti hinn ungi og bráðefnilegi tónlistarmaður Birkir Blær Óðinsson.

Auk Valgeirs B. Magnússonar framkvæmdastjóra SÍMEY fluttu ávörp við brautskráninguna annars vegar Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri Öldrunarheimila Akureyrar og hins vegar Ósk Helgadóttir sem brautskráðist í dag af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú.

Sí- og endurmenntun 21. aldar
Í ávarpi sínu ræddi Helga Erlingsdóttir um gildi menntunar frá ýmsum hliðum en fræðslumál starfsmanna Öldrunarheimila Akureyrarbæjar eru mikið á hennar borði. Helga sagði að símenntun starfsfólk væri mikilvægari en nokkru sinni áður – á tíma hraðra tæknibreytinga. Í því sambandi nefndi hún að árið 2007 hafi iphone-síminn komið fram á sjónarsviðið – fyrir aðeins áratug – en nú eigi nánast hver maður snjallsíma. Áfram haldi tæknibyltingin, sagði Helga, og nú sé farið að tala um að innan fárra ára verði sjálfkeyrandi ökutæki á götunum. Helga sagðist telja að símenntun 21. aldarinnar verði fyrst og fremst í gegnum mismunandi samfélagsmiðla og snjalltæki þannig að fólk geti endur- og símenntað sig þegar því hentaði.

„Geng glöð út í sumarið“
Sem fyrr segir brautskráðist Ósk Helgadóttir í dag af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Hún rifjaði upp að hún hefði lokið grunnskólanámi árið 1979 og síðan hafi lífið tekið við með því sem það bauð upp á þeim tíma. Menntun hafi ekki verið sér ofarlega í huga á þessum tíma. Síðan hafi hún eignast fjölskyldu og komið börnum upp en alltaf hafi undir niðri blundað í sér löngunin til að takast á við nám. Hins vegar hafi hún ekki haft trú á sjálfri sér til þess að setjast aftur á skólabekk. En loksins hafi hún ákveðið að byrja með því að taka nokkur fög í fjarnámi í VMA og í framhaldi af því skráði hún sig til náms í SÍMEY. Þetta var árið 2014. Síðan sagðist Ósk hafa tekið nám af ýmsum toga í SÍMEY og sagðist hún vera starfsfólki SÍMEY og samnemendum ævarandi þakklát fyrir stuðninginn, kennsluna og frábæra samveru. „Það er mikið átak að rífa sig af stað,“ sagði Ósk, „en ég er mun sterkari manneskja en áður og geng glöð út í sumarið.“

Uppskera árangurs
„Dagurinn í dag er uppskera árangurs, þið hafið lagt á ykkur mikla vinnu, farið út fyrir þægindarammann og dagurinn í dag gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga. Þið hafið bætt við ykkur þekkingu  og öðlast hæfni og getu til að að takast á við ný verkefni og án efa skapað ykkur ný tækifæri í lífinu. Dagurinn í dag er líka dagur stoltsins. Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu. Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi þá er þessi dagur líka afar mikilvægur en á þessum degi kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur. Einhvers staðar segir að það að geta haft áhrif á aðra mannskju til góðs sé það mikilvægasta í lífinu. Með hvatningu, ráðgjöf, viðurkenningu, kennslu eða öðru. Að þessu leyti eru forréttindi að vinna á þessum vettvangi okkar, dagurinn í dag dregur það sterkt fram,“ sagði Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, m.a. þegar hann ávarpaði brautskráningarnema og gesti við brautskráninguna í dag.

Að takast á við breyttan heim
Valgeir sagði það staðreynd að samfélagið breytist hratt í takti við tækniframfarir á öllum sviðum. „Störf breytast, breyttar kröfur á vinnustöðum um tiltekna þekkingu, hæfileikinn til að aðlagast verður sífellt mikilvægari. Afar og ömmur sitja með snjalltækin í forundran með barnabörnin á öxlinni. Hvernig eigum við að takast á við breytilegan heim? Valdefling einstaklinga er í okkar huga sem í þessum geira störfum lykilatriði í þessu samhengi. Með því að stuðla að valdeflingu einstaklinga og sjálfsuppbyggingu þá erum við að auka möguleika fólks á því að hafa fleiri valkosti, geta tekið ígrundaðri ákvarðanir, aukum hæfni þess til ákvarðanatöku og aðlögunarhæfni, aukum sjálfstraust og samskiptafærni. Við megum ekki um of óttast þann heim sem við lifum í. Fremur þurfum við að hugsa hvernig við getum tekið þátt í honum með uppbyggilegum hætti og nýtt hæfileika okkar sem best, fyrir okkur sjálf og umhverfi okkar.
Nám hefur gjarnan mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga. Uppgötvun nýrra hæfileika sem maður hélt að væru ekki til staðar eða horfnir er afar jákvæð og hefur sterk áhrif á einstaklinga. Viðhorf gagnvart starfsumhvefi breytist, öryggi og viðsýni tekur völdin í huga einstaklinga. Ný tengsl myndast fólks á milli og þann þátt að læra af öðrum skal ekki vanmeta í námi,“ sagði Valgeir.

3500 manns nýttu sér þjónustu SÍMEY 2016
Valgeir gat þess að SÍMEY væri á sínu átjánda starfsári og á þessum árum hafi orðið markverðar breytingar í starfseminni og hún vaxið. Á árinu 2016 sagði Valgeir að þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu SÍMEY hafi verið um 3500 manns.  „Við höfum verið leiðandi í samstarfi við atvinnulíf varðandi ýmis þróunarverkefni, fjölmenningu og aðstoð við flóttafólk. Verkefni okkar eru á víðum grunni, stór hluti starfseminnar er að bjóða fullorðnu fólki upp á vottaðar námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, almennt námskeiðahald fyrir samfélagið og einnig klæðskersniðnar lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir í formi námskeiðahalds, fyrirtækjaskóla og mannauðsráðgjafar. Þá bjóðum við upp á íslensku fyrir útlendinga og sjáum um námskeiðahald fyrir Fjölmennt, sem er fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða.“

Breytingar á starfsmannahaldi
Tólf starfsmenn eru hjá SÍMEY og auk þess hafa í vetur starfað um 100 verktakar fyrir SÍMEY – til skamms eða lengri tíma. Valgeir gat þess að þær breytingar hafi orðið á starfsmannahaldinu hjá SÍMEY síðla vetrar og í vor að Anna Lóa náms- og starfsráðgjafi lét af störfum en tveir nýir starfsmenn hafi verið ráðnir til starfa, Kristján Sturluson og Aníta Jónsdóttir. Þakkaði Valgeir Önnu Lóu fyrir hennar störf undanfarin tvö ár og óskaði nýjum starfsmönnum velfarnaðar í störfum sínum.