Sif Jóhannesdóttir ráðin verkefnastjóri hjá SÍMEY

Sif Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY.
Sif Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY.

Sif Jóhannesdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og vinnur hún auk annarra verkefna að framhaldsfræðslu við utanverðan Eyjafjörð. Svanfríður Inga Jónasdóttir, sem lét af störfum sem verkefnastjóri SÍMEY á Dalvík um síðustu áramót, hafði áður yfirumsjón með framhaldsfræðslu SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð. Sif hóf störf hjá SÍMEY 1. febrúar sl.

Sif er Eyfirðingur, hún ólst upp á Þinghóli í Kræklingahlíð og lauk námi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1994. Leiðin lá í þjóðfræði í Háskóla Íslands og síðan starfaði hún í nokkur ár við kennslu í Hafralækjarskóla í Aðaldal þar sem hún var umsjónarkennari nemenda frá meðferðastofnununum Árbót og Bergi. Árið 2007 hóf Sif störf hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og var áherslan á atvinnuþróunarverkefni í Norður-Þingeyjarsýslu, ekki síst í ferðaþjónustu. Einnig starfaði hún um tíma að verkefninu Fornleifaskóli barnanna á vegum Hins þingeyska fornleifafélags.

Árið 2010-2011 var Sif safnakennari Menningarmiðstöðvar Þingeyinga á Grenjaðarstað, Snartarstöðum, Sauðaneshúsi og Safnahúsinu á Húsavík. Hún tók síðan við forstöðumannsstarfi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga árið 2011, með aðsetur á Húsavík, og gegndi því til sl. hausts.

Sif segir að þegar hún hafi séð auglýsingu um þetta starf hjá SÍMEY hafi hún ákveðið að sækja um enda sé alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Hún segir starfið meðal annars felast í því að hafa yfirumsjón með starfemi SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð og því verði hún jafnan með annan fótinn tvo daga í viku í námsverinu á Dalvík. Auk þess vinni hún að ýmsum verkefnum hjá SÍMEY á Akureyri.

„Ég hef ekki áður komið að framhaldssfræðslu og mér finnst mjög spennandi að takast á við þetta nýja vekefni. Ég tel að reynsla mín úr fyrri störfum, m.a. hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, nýtist vel. Eins og í því starfi felst vinnan hjá SÍMEY í ráðgjöf og utanumhaldi af ýmsum toga. Og mannleg samskipti eru auðvitað stór þáttur í þessu starfi eins og mínum fyrri störfum,“ segir Sif.

Fjölskyldan býr sem stendur á Húsavík en hyggst á næstu mánuðum flytja til Akureyrar. Eiginmaður Sifjar er Sveinn Aðalsteinsson, smiður og sauðfjárbóndi. Síðustu tvö ár hafa þau hjónin rekið sauðfjárbúið á Ærlæk í Öxarfirði en á því verður breyting næsta haust. Sif segist því vera sauðfjárbóndi í hjáverkum – að minnsta kosti um helgar – og segist hafa haft mikla ánægju af því.