Samstarfsverkefni SÍMEY, Mímis, Austurbrúar og Studieskolen um kennslu í íslensku sem annað mál

Önnum kafin á vinnustofu um kennslu í íslensku sem annað mál.
Önnum kafin á vinnustofu um kennslu í íslensku sem annað mál.

Á undanförnum mánuðum hefur verið meiri þungi í umræðu í samfélaginu en oft áður um íslensku sem annað mál og hvernig beri að auka færni erlends fólks í íslensku til þess að auðvelda því að taka virkan þátt í samfélaginu. Að hluta til má tengja aukna umræðu við þá staðreynd að hælisleitendum og flóttamönnum hefur fjölgað hér á síðustu mánuðum vegna m.a. stríðsátakanna í Úkraínu. 

Íslenska sem annað mál er kennd á öllum skólastigum í hinu formlega skólakerfi og einnig hafa símenntunarmiðstöðvar lengi kennt íslensku sem annað mál.

Þróunarverkefni SÍMEY og Studisskolen

Vorið 2020 fékk SÍMEY styrk úr Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar til þess að vinna veflægt hæfnimat fyrir nám í íslensku sem annað tungumál. SÍMEY vann að þessu verkefni í samstarfi við tungumálaskólann Studieskolen í Kaupmannahöfn. Þar hafði lengi verið stuðst við hæfnipróf, tengt við Evrópska tungumálarammann, þar sem nemendur gátu kannað tungumálakunnáttu sína og valið sér námskeið við hæfi. SÍMEY þýddi og staðfærði þetta veflæga hæfnipróf á íslensku og er það nú aðgengilegt öðrum fræðslustofnunum til að nýta.

Lokapunktur þessa þróunarverkefnis var vinnustofa í SÍMEY í júní sl. þar sem fulltrúar Studieskolen, símenntunarmiðstöðva um allt land og Menntamálastofnunar ræddu vítt og breitt um stöðu kennslu í íslensku sem annars tungumáls. Leiðarstefið í umræðunni var hugmyndafræði Evrópska tungumálarammans og mótun íslenskunámskeiða út frá honum. Skýr vilji kom fram í umræðunni um að breytingar þurfi að verða í íslenskukennslunni á þann veg að íslenskan nýtist fólki betur í sínu daglega lífi og starfi.

Nýtt þróunarverkefni – styrkt af Nordplus

Þrátt fyrir að þessu þróunarverkefni hafi lokið á liðnu sumri hefur punkturinn síður en svo verið settur aftan við þessa umræðu. SÍMEY sótti um og fékk Nordplus styrk til eins árs til þess að halda áfram með þessa vinnu. Ákveðið var að vinna aftur með Studieskolen í Kaupmannahöfn en fá jafnframt Mími-símenntun og Austurbrú með til samstarfs. Þetta næsta skref felur í sér endurmótun á fyrstu tveimur hlutum íslenskukennslunnar, A1 og A2, samkvæmt Evrópska tungumálarammanum og hófst með vinnustofu sem verkefnastjórar og íslenskukennarar frá framangreindum símenntunarmiðstöðvum og Studieskolen voru með í Fnjóskadal sl. þriðju- og miðvikudag.

Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segir að í þessu verkefni sé kafað dýpra í hugmyndafræði Evrópska tungumálarammans og aðlögun íslenskukennslunnar að honum. Grunnstefið sé að íslenskukennslan hafi að leiðarljósi að meta stöðu og þarfir nemenda hverju sinni og bjóða upp á nám/námsefni sem nýtist fólki í daglega lífi og starfi.

„Síðan horfum við til þess að þróa rafrænt kennsluefni út frá hugmyndafræði Evrópska tungumálarammans, sem kallar á töluvert aðra nálgun en áður. Þetta er risastórt verkefni og frumvinna sem mun að mínu mati nýtast í íslenskukennslu um allt land. Eftir þessari vinnu hefur lengi verið kallað og hún er nú komin í fullan gang. Við erum heppin að vera með frábæran kennarahóp sem mun leiða þessa vinnu en þeirra verkefni núna er að skilgreina hvaða efni við teljum að eigi heima á fyrstu stigum tungumálarammans og reyna að sjá út hversu mikinn tíma þarf til að ná færni A1 og A2. Stóra áskorunin er að fjölga þeim sem vilja og geta lært tungumálið okkar. Það skiptir miklu máli fyrir fólk sem býr hér til lengri eða skemmri tíma og um leið skiptir það gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið allt,“ segir Kristín Björk Gunnarsdóttir.