Samstarf um tæknifræðinám á háskólastigi

Við undirritun samningsins
Við undirritun samningsins
Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY, Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis hafa undirritað samstarfssamning um að þróa fjarnám í tæknifræði á háskólastigi á Akureyri frá og með næsta skólaári.

Samningurinn felur í sér að bjóða upp á nám í tæknifræði til BSc-gráðu að hluta í fjarnámi á Akureyri. Einkum er horft til fyrsta og seinni hluta þriðja árs en annað árið og fyrri hluti þriðja árs mun fara fram í höfuðstöðvum Keilis. Keilir býður nemendum upp á húsnæði á hagstæðum leigukjörum.

Samningurinn var undirritaður í húsakynnum VMA á Akureyri, fimmtudaginn 27. mars síðastliðinn. Þar kom fram að lengi hafi verið horft til þess að hefja slíkt nám á Akureyri, enda talin mikil þörf á slíku námi. Fram kom að til þessa hafi nemendur á Norðurlandi annað hvort þurft að fara í slíkt nám til Reykjavíkur eða jafnvel erlendis, sérstaklega hafa margir farið í tækninám til Danmerkur.

Ef að nemendafjöldi á Akureyri verður nægjanlegur er stefnt að því að hluti staðlota og verklegrar kennslu fari fram við VMA eftir nánara samkomulagi.

Um er að ræða þriggja ára nám til BSc-gráðu í tæknifræði og til þess að fá löggildingu sem tæknifræðingur bætist hálft ár við. Gert er ráð fyrir að nemendur vinni lokaverkefni í náminu í samstarfi við fyrirtæki á Norðurlandi, sem og þriggja vikna verkefni nemenda eftir því sem við verður komið.

Í samstarfi við SÍMEY verður skipulagt undirbúningsnám fyrir þá sem hyggja á tæknifræðinám en uppfylla ekki inntökuskilyrði. Við það er miðað að hefja námið í haust, náist nægilegur fjöldi nemenda. Allar frekari upplýsingar veitir Keilir, VMA og SÍMEY. Hægt er að sækja um námið á heimasíðu Keilis.

„Ég lít svo á að þessi samstarfssamningur sé mikið fagnaðarefni. Ég hef löngum verið talsmaður þess að boðið verði upp á tækninám á háskólastigi hér á Akureyri; hvort sem er fyrir þá nemendur sem lokið hafa almennu stúdentsprófi, stúdentsprófi að loknu iðnnámi, fullnaðarnámi í vélstjórn eða þá sem lokið hafa sveinsprófi í iðngrein og hafa hug á frekara tækninámi. Þetta er því mikilvægt skref fyrir allt þetta svæði og atvinnulífið hér, sem lengi hefur kallað eftir aukinni tæknimenntun,“ segir Hjalti Jón Sveinsson.