Samstarf SÍMEY og Tæknináms.is

SÍMEY og fyrirtækið Tækniám.is hafa tekið upp samstarf um námskeiðahald en Tækninám.is býður upp á fjölmörg námskeið á vefnum fyrir tölvunotendur, jafnt sniðin fyrir fyrirtæki sem einstaklinga, þar sem kenndir eru fjölmargir hlutir í tölvunotkun, t.d. Office 365, Excel, Word, Windows, Microsoft Teams, WorkPlace, Facebook o.fl.

Á netinu hefur fólk aðgang að ógrynni af youtube kennslumyndböndum á erlendum tungumálum um notkun á fjölmörgum algengum forritum en munurinn er sá að myndbönd Tæknináms.is eru öll á íslensku. Kjartan Sigurðsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segir að kallað hafi verið eftir íslenskum kennslumyndböndum í tölvukennslu og þessi myndbönd Tæknináms.is svari þeirri eftirspurn. Auk þess að geta nálgast myndböndin á vefnum halda sérfræðingar Tæknináms.is námskeið í skólastofu, nýlega var haldið slíkt Office 365 námskeið hjá SÍMEY.

Kjartan segist vænta mikils af þessu samstarfi, það opni fólki nýjar og áhugaverðar leiðir í tölvunámi og svari vaxandi eftirspurn. Auk hefðbundinna tölvunámskeiða í skólastofu hafi fólk möguleika á því að fylgja þeim eftir með því að kaupa aðgang að skýringarmyndböndum á vefsvæði Tæknináms.is. Einnig bjóðist fólki að kaupa sér beinan aðgang að ákveðnum námskeiðum og geti þannig haft aðgang að sérfræðingum Tæknináms.is til frekari útskýringa.

Unnið er að útfærslu á samstarfi SÍMEY og Tæknináms.is en í framhaldinu fara skráningar á námskeiðin í gegnum SÍMEY. Allar nánari upplýsingar veitir Kjartan Sigurðsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY.