Samningur SÍMEY við Starfsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefur gert samninga við starfsmenntunarsjóðina Starfsmennt, Sveitamennt og Ríkismennt um greiðslur fyrir þátttöku fólks í námskeiðum hjá SÍMEY.

Fræðslusetrið Starfsmennt býður opinberum starfsmönnum upp á starfstengda símenntun og veitir stofnunum heildstæða þjónustu á sviði starfsþróunar. Á heimasíðu Starfsmenntar segir eftirfarandi: „Fræðslusetrið Starfsmennt er í eigu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og flestra stéttarfélaga ríkisstarfsmanna innan BSRB. Nám og þjónusta setursins er öllum opinberum starfsmönnum sem eru félagsmenn eftirtalinna stéttarfélaga að kostnaðarlausu sem hluti af kjarasamningsbundnum réttindum og flest almenn námskeið eru opin öðrum gegn gjaldi." Sjá nánar hér.

Samningur SÍMEY við Starfsmennt kveður á um að Starfsmennt greiðir þátttökugjöld fyrir félagsmenn aðildarfélaga sinna á eftirtalin námskeið núna á vorönn: Mannnlegi millistjórnandinn (hefst 6. febrúar), Árangursrík samskipti (verður 10. apríl), Styrkleikar í lífi og starfi (21. febrúar), Verkefnastjórnun, fyrstu skrefin (21. mars) og Starfsmannaviðtöl.

Starfsmennt tekur við skráningum á námskeiðin á vef sínum fyrir félagsmenn aðildarfélaga Starfsmenntar.

Ríkismennt er þróunar- og símenntunarsjóður starfsmanna ríkisins og sjálfseignarstofnana á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Á Eyjafjarðarsvæðinu er Eining-Iðja aðildarfélag SGS.

Sveitamennt er þróunar- og símennntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Á Eyjafjarðarsvæðinu er það sömuleiðis Eining-Iðja.

Félagsmenn í Einingu-Iðju sem eiga aðild að Ríkismennt og Sveitamennt geta sótt námskeið hjá SÍMEY og greiða sjóðirnir fyrir þátttöku þeirra að fullu. 

Fólk skráir sig á námskeiðin í gegnum heimasíðu SÍMEY og þarf að taka fram nafn stéttarfélags þátttakanda.