Ritarinn skellti sér í smáskipanám

Kristjana Friðriksdóttir, ritari hjá SÍMEY.
Kristjana Friðriksdóttir, ritari hjá SÍMEY.
Það er gömul saga og ný að það er aldrei of seint að setjast á skólabekk og auka og endurnýja sinn viskubrunn. Kristjana Friðriksdóttir, sem starfar sem ritari hjá SÍMEY, lét gamlan draum rætast og dreif sig í janúar sl. í smáskipanám í Skipstjórnarskóla Tækniskólans í Reykjavík. Námið tók hún að stærstum hluta í fjarnámi en var í einni fjögurra daga námslotu syðra.

Það er gömul saga og ný að það er aldrei of seint að setjast á skólabekk og auka og endurnýja sinn viskubrunn. Kristjana Friðriksdóttir, sem starfar sem ritari hjá SÍMEY, lét gamlan draum rætast og dreif sig í janúar sl. í smáskipanám í Skipstjórnarskóla Tækniskólans í Reykjavík. Námið tók hún að stærstum hluta í fjarnámi en var í einni fjögurra daga námslotu syðra.

„Fyrst og fremst fór ég í þetta mér til ánægju. Ég er alin upp við sjóinn í Höfn á Svalbarðsströnd og sem krakkar fórum við oft á sjó á trillu með föður mínum, Friðriki Leóssyni. Síðan þá hefur mig lengi langað til þess að læra siglingafræði. Þegar ég varð fimmtug fyrir nokkrum árum sagði maðurinn minn, Sigurður Steingrímsson, mér að hann myndi borga fyrir mig kostnað við pungaprófið ef ég myndi drífa mig í það. Ég gerði það reyndar ekki þá en núna um áramótin vorum við að skoða námsframboð í Tækniskólanum og sáum þá auglýst svokallað Smáskipanám. Sigurður stakk þá upp á því að ég drifi mig í námið núna og það varð úr. Ég byrjaði 18. janúar og lauk námskeiðinu 20. febrúar sl.,“ segir Kristjana.

Smáskipanám kemur í stað þess sem áður var nefnt 30 rúmlesta réttindanám (pungaprófið) og miðast atvinnuskírteinin við lengd skipa í stað brúttórúmlestatölu áður. Núna miðast réttindin við skip 12 metra og styttri að skráningarlengd og þarf þá að ljúka ákveðnum siglingatíma.

„Námið var kennt í fjarnámi. Ég lærði því að mestu heima en var fyrir sunnan í fjóra daga þar sem við fengum m.a. kynningu á siglingatækjum og díselvélum og síðan tók ég prófið. Það höfðu liðið 38 ár frá því ég tók síðasta prófið mitt í skóla – ég útskrifaðist úr MA vorið 1978. Tilhugsunin um að fara í próf eftir svona langt hlé í skóla vakti hjá mér ugg en svo þegar ég mætti í það var þetta ekkert mál, enda kunni ég námsefnið vel. Mér gekk mjög vel og ég hugsaði eftir á: af hverju var ég stressuð? Vissulega var námið heilmikil törn en sannarlega þess virði, ég hafði mikla ánægju af þessu. Meðal annars lærði ég siglingafræði, að stinga stefnur og staði út í kort og færa stefnur úr korti í kompás og öfugt. Einnig lærðum við siglingareglur og stöðugleika skipa. Ég er sem sagt búin með bóklega hlutann en vegna þess að ég er ekki með lögskráningu á sjó fæ ég ekki réttindin, ég þarf að hafa lokið lögskráningartíma á sjó í átta mánuði. Það er reyndar talað um tólf mánaða siglingatíma en einn dagur á sjó gildir meira en einn dagur í landi. Þess vegna er lögskráningartíminn í raun átta mánuðir en ekki tólf. Lögskráningin þarf ekki að vera samfelld, ég get tekið hana á löngum tíma en þarf sem sagt í það heila að safna átta mánuðum. Ég er búin að ráðstafa komandi sumri en á næsta ári er aldrei að vita nema ég freisti þess að komast á sjó þá átta mánuði sem er krafist. Eftir því sem ég kemst næst skiptir ekki máli hvað ég er að gera á skipunum – hvort ég er háseti, kokkur eða eitthvað annað.“

Kristjana segir að fyrst hún sé komin svona vel á veg með námið vilji hún gjarnan klára það með því að safna sér þeim lögskráningartíma sem þarf. „Mér finnst þetta ótrúlega gaman og ég nota hvert tækifæri sem gefst til þess að fara á sjó. Ég hef sagt það að þegar ég fer á eftirlaun fer ég bara að veiða og sigla,“ segir Kristjana og brosir, en bróðurpart af sínum starfsferli hefur hún unnið hin ýmsu skrifstofustörf.