Raunfærnimatið var hvatningin sem ég þurfti

Jenný Dögg Heiðarsdóttir að lokinni brautskráningu í SÍMEY í dag.
Jenný Dögg Heiðarsdóttir að lokinni brautskráningu í SÍMEY í dag.

„Þetta var hvatningin sem ég þurfti,“ sagði Jenný Dögg Heiðarsdóttir, aðstoðarmatráður á leikskólanum Krílakoti á Dalvík, en hún tók við skírteini við útskrift SÍMEY í dag til staðfestingar á því að hún hafi lokið raunfærnimati í matartækni.  

Jenný Dögg hefur starfað á Krílakoti undanfarin ár en um er að ræða stóran leikskóla með rösklega hundrað börn og starfsmennirnir eru um þrjátíu. Hún segist ekki hafa leitt hugann að því að fara í raunfærnimat í matartækni, satt best að segja hafi hún ekki haft hugmynd um þann möguleika. En eftir að Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, kom í heimsókn á Krílakot og kynnti þennan möguleika var ekki aftur snúið. Jenný Dögg skráði sig og lauk sem sagt þessum áfanga í dag og er nú þegar búin að skrá sig í matartæknanám við Verkmenntaskólann á Akureyri í haust. Raunar fer hún þar á fornar slóðir því hún var langt komin með stúdentspróf af félagsfræðibraut við VMA þegar hún hætti námi árið 2000, fyrir nítján árum. En nú er komið að nýjum kafla og Jenný Dögg fer aftur yfir þröskuld VMA í matartæknanámið, 38 ára gömul. Og ekki nóg með það, hún upplýsir að hún ætli sér einnig að klára stúdentsprófið. Hún eigi svo lítið eftir til þess að fá hvíta kollinn, nú ætli hún að láta slag standa, til viðbótar við matartæknanámið.

„Ég viðurkenni alveg að ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í þegar ég skráði mig í raunfærnimatið en þetta var mjög lærdómsríkt og opnar nýjar dyr fyrir mig,“ segir Jenný Dögg Heiðarsdóttir.