Raunfærnimatið eykur sjálfstraust

Sólveig Sigurjónsdóttir var ein af fjórum sem brautskráðist úr fisktækninámi í Fisktækniskóla Ísland…
Sólveig Sigurjónsdóttir var ein af fjórum sem brautskráðist úr fisktækninámi í Fisktækniskóla Íslands á vorútskrift SÍMEY sl. vor. Sólveig er hér fyrir miðri mynd. Lengst til hægri er Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri Fisktækniskólans.

Sólveig Sigurjónsdóttir hefur til fjölda ára verið verkstjóri í ÚA, landvinnslu Samherja á Akureyri. Hún fór í raunfærnimat hjá SÍMEY og í framhaldinu í nám í Fisktækniskóla Íslands.

„Ég byrjaði í starfi hjá ÚA árið 1978 og vann þar í almennum fiskvinnslustörfum. Ég starfaði síðan tímabundið í þrifum á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en fór eftir það aftur niður í ÚA. Á árunum 1988-1994 rak ég verslun en frá árinu 1994 hef ég óslitið starfað hjá ÚA, m.a. sem flokksstjóri, um tíma vann ég á skrifstofunni en hef síðustu árin verið ásamt öðrum verkstjóri í vinnslusalnum,“ segir Sólveig.

Hún rifjar upp að henni hafi fyrst og fremst fundist lærdómsríkt og gefandi að fara í gegnum raunfærnimatið í SÍMEY og í framhaldi af því hafi hún farið í nám í Fisktækniskóla Íslands. Komið hafi á daginn þegar málið var skoðað að vegna fjölda námskeiða sem hún hafi verið búin að taka hafi hana ekki vantað mikið upp á til þess að ljúka fisktæknináminu í Fisktækniskólanum. Náminu lauk hún á síðasta ári og brautskráðist með formlegum hætti í SÍMEY í júní 2019 ásamt þremur öðrum, tveir þeirra eru einnig starfsmenn ÚA.

„Þegar ég fór í námið í Fisktækniskólanum hafði ég ekki verið í formlegu námi í mörg ár og því var þetta mikil áskorun en fyrst og fremst mjög skemmtilegt og gefandi. Ég hafði tekið mörg ólík starfstengd námskeið og einnig hef ég setið ýmis námskeið í SÍMEY og þau höfðu auðvitað sitt að segja þegar kom að raunfærnimatinu. Ég fann að raunfærnimatið ýtti við mér að gera eitthvað meira og ég hef hvatt fólk sem hefur lengi unnið hér hjá ÚA að skoða það í fullri alvöru að láta á það reyna að fara í raunfærnimat. Það tapar enginn á því, raunfærnimat er að mínu mati fyrst og fremst til þess fallið að auka sjálfstraust fólks og ýtir undir að það haldi áfram að bæta við þekkingu sína,“ segir Sólveig Sigurjónsdóttir.