Raunfærnimat fyrir starfsfólk á sambýlum og öldrunarstofnunum

Starfsfólk á öldrunarstofnunum og sambýlum er núna í raunfærnimati í SÍMEY.
Starfsfólk á öldrunarstofnunum og sambýlum er núna í raunfærnimati í SÍMEY.

Tíu manns sem starfa við umönnun á öldrunarstofnunum og sambýlum eru þessa dagana í raunfærnimati í SÍMEY. Í ljósi þess að aðeins tvö ár eru síðan SÍMEY bauð síðast upp á raunfærnimat fyrir fólk í þessum störfum segir Aníta Jónsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY, sem hefur yfirumsjón með þessu raunfærnimati, afar ánægjulegt hversu margir starfsmenn hafi ákveðið að láta meta færni sína í starfi.

Það er gömul saga og ný að fyrir fullorðið fólk sem hefur til fjölda ára verið á vinnumarkaði, en kýs á einhverjum tímapunkti að sækja sér formlega menntun og staðfestingu á þekkingu sinni og hæfni í viðkomandi starfi, er raunfærnimat afar öflugt tæki. Ekki aðeins styttir það leið fólks að settu marki heldur veitir því einnig sjálfstraust til að takast á við nýjar áskoranir þegar kemur að frekara námi eða framgangi í starfi.

Aníta segir að almennt vilji fólk með raunfærnimati fá formlega staðfestingu á færni sinni. Í mörgum tilfellum hafi þeir sem nú séu í þessu raunfærnimati starfað í umönnunarstörfum í mörg ár og aflað sér yfirgripsmikillar reynslu og þekkingar. Alltaf fari einhverjir í raunfærnimat vegna þess að þeir hafi hugsað sér að afla sér menntunar í framhaldinu og á þessu sviði verði boðið upp á námsbrautina Félagsliðabrú, sem er fjögurra anna nám, í SÍMEY í september nk. „Við höfum séð mörg dæmi þess að fólk sem fer í raunfærnimat kemst á bragðið, ef svo má segja, og skráir sig í nám í framhaldinu,“ segir Aníta.

Raunfærnimat er töluvert yfirgripsmikið. Fólk gerir færnimöppur og fyllir út matslista. Einnig eiga þáttakendur viðtöl við matsaðila, sem kallaðir eru til. Að þessu raunfærnimati koma óvenju margir matsaðilar enda tekur matið til margra og mismunandi efnisþátta sem tengjast störfum þess fólks sem nú er raunfærnimetið.

„Ég hef oft upplifað að fólk kemur í raunfærnimat fullt kvíða en þegar samtalið við matsaðilann hefst breytast hlutirnir fljótt. Þetta raunfærnimat er töluvert umfangsmikið og hver og einn sem tekur þátt í því þarf að koma hingað í tvö til þrjú skipti. Útgangspunkturinn er færnimappan sem fólk gerir, þar sem tilgreind er reynsla viðkomandi, námskeið og réttindi, og síðan fylla þátttakendur út gátlista. Allt fer þetta fram í góðu samtali við matsaðilann,” segir Aníta og bætir við að stefnt sé að því að raunfærnimatinu verði lokið eigi síðar en um miðjan júní.

Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati er að viðkomandi sé að lágmarki tuttugu og þriggja ára og hafi að baki þriggja ára staðfesta starfsreynslu í sinni atvinnugrein.