Rafrænn skóli velferðarsviðs Akureyrarbæjar

Nú þegar eru aðgengileg fimm námskeið í veflægum skóla velferðarsviðs Akureyrarbæjar.
Nú þegar eru aðgengileg fimm námskeið í veflægum skóla velferðarsviðs Akureyrarbæjar.

Á undanförnum tveimur árum hefur SÍMEY annast verkefnastjórn við uppsetningu tveggja rafrænna skóla, annars vegar hjá Sæplasti á Dalvík – Sæplastskólinn – og nú hefur verið opnaður rafrænn skóli fyrir starfsfólk velferðarsviðs Akureyrarbæjar.

Vinna við rafrænan skóla velferðarsviðs hófst fyrir tæpum tveimur árum. Starfsemin er fjölþætt og umfangsmikil enda eru um þrjú hundruð starfsmenn á velferðarsviðinu. Undir sviðið heyra t.d. málaflokkar eins og þjónusta við börn og aldraða, málefni fatlaðra, félagsþjónusta o.fl.

Í hinum nýja rafræna skóla eru nú þegar aðgengileg fimm námskeið – um þjónandi leiðsögn, valdeflingu, óhefðbundnar tjáskiptaleiðir, heilabilun og fræðsla fyrir nýja starfsmenn Akureyrarbæjar.

Námsefnið, sem er af ýmsum toga, vann starfsfólk velferðarsviðs í samstarfi við SÍMEY sem jafnframt aðstoðaði við vinnslu námsefnisins og uppsetningu og að gera skólann aðgengilegan fyrir notendur.

Eins og með Sæplastskólann var rafrænn skóli velferðarsviðs settur upp í kerfislausninni Teachable.

Þó svo að báðir þessir rafrænu skólar séu nú virkir og námsefnið aðgengilegt er þar með ekki öll sagan sögð því námsefnið tekur stöðugum breytingum, fræðsluefni úreldist og ný tækni kallar á nýjar nálganir og upplýsingar.