Ótrúleg 25 ára vegferð

Í 25 ára sögu SÍMEY hafa einungis verið tveir stjórnarformenn, fyrst Baldur Dýrfjörð og  frá 2003 he…
Í 25 ára sögu SÍMEY hafa einungis verið tveir stjórnarformenn, fyrst Baldur Dýrfjörð og frá 2003 hefur Arna Jakobína Björnsdóttir verið stjórnarformaður og hefur hún verið í stjórninni frá upphafi.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar – stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, tók á sínum tíma þátt í stofnun SÍMEY og hefur setið í stjórn frá upphafi, þar af sem stjórnarformaður frá 2003. Fyrsti stjórnarformaðurinn var Baldur Dýrfjörð. 

Arna Jakobína fór yfir eitt og annað úr sögu SÍMEY í 25 ára afmælishófinu í dag og dró fram áhugaverðar tölulegar staðreyndir:

 

Kæru gestir og starfsfólk.

Það er gaman að sjá hvað þið eruð mörg sem komið hér til að fagna með okkur í dag, til að líta yfir farinn veg og taka á móti framtíðinni. Verið öll hjartanlega velkomin.

Nú fögnum við 25 ára afmæli SÍMEY, stofnunar sem hefur verið leiðandi í símenntun og þar með í að styrkja samfélagið hér í Eyjafirði. Á þessum tuttugu og fimm árum höfum við unnið að því að hækka menntunarstig íbúanna og aðstoðað fyrirtæki, stofnanir og almenning sem hingað hefur leitað eftir aðstoð.

Þann 29. mars árið 2000 var haldinn stofnfundur Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Undirbúningur hafði staðið yfir síðan 1998 þegar atvinnumálanefnd Akureyrarbæjar hélt stefnumótunarfund og hratt af stað undirbúningi sem fulltrúar stofnana, atvinnulífsins og félagasamtök tóku þátt í. Sett var á fót verkefnastjórn sem skilaði tillögum í desember 1999 með drögum að samþykktum og öðru. Ýmislegt hafði verið í gangi á sviði sí- og endurmenntunar og má í því sambandi nefna Menntasmiðju kvenna, öldungadeildir bæði í MA og VMA, Tölvufræðsluna og fleira.

Stofnaðilar SÍMEY voru opinberar stofnanir, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Skatturinn, RARIK, Landsvirkjun, stéttarfélögin við Eyjafjörð á almenna markaðnum og þeim opinbera, Akureyrarbær, sveitarfélögin við Eyjafjörð og loks allar menntastofnanir á Akureyri.

Í fyrstu stjórn sátu: Baldur Dýrfjörð, fulltrúi opinberra fyrirtækja, sem varð formaður; Annette J. De. Vink, fulltrúi fræðslustofnana; Arna Jakobína Björnsdóttir, fulltrúi opinberra stéttarfélaga; Guðmundur Ómar Guðmundsson, fulltrúi almennra stéttarfélaga; Heiðrún Jónsdóttir, fulltrúi almennra fyrirtækja; Hólmgeir Karlsson, fulltrúi sveitarfélaga við Eyjafjörð, og Svavar Alfreð Jónsson, fulltrúi Akureyrarbæjar.

Öllu þessu mæta fólki eru færðar þakkir svo og öllum þeim sem setið hafa í stjórn síðan. Það skal þó tekið fram að öðrum formönnum er ekki til að dreifa en mér og Baldri.

Fyrsta verk stjórnar var að ráða Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur sem framkvæmdastjóra og hóf hún störf 1. júní árið 2000. Henni eru einnig færðar bestu þakkir fyrir að marka fyrstu fótspor SÍMEY sem og þeim Soffíu Gísladóttur, Erlu Björk Valgerðar Guðmundsdóttur og núverandi framkvæmdastjóra, Valgeiri Magnússyni. Þau hafa hvert með sínum hætti mótað stefnuna.

Meginhlutverk SÍMEY frá upphafi hefur verið skýrt: Að efla símenntun í Eyjafirði og stuðla að frekara samstarfi atvinnulífs, stofnana og fyrirtækja sem veita þjónustu á sviði símenntunar og endurmenntunar. Markmiðið var alltaf að styrkja stoðir atvinnulífsins og auka samkeppnishæfni fyrirtækja og stofnana og þar með fræðsluaðilanna sjálfra. Hlutverk SÍMEY var ekki síður að ná til einstaklinga, óháð beinni atvinnuþátttöku þeirra, auka námsframboð og markaðssetja það.

Hér var horft til óformlegs náms, tómstundanáms og annarrar lífsleikni. SÍMEY var á þessum tíma ætlað að vera nokkurs konar markaðstorg fyrir fræðsluaðila sem voru með námskeiðshald. Samningar voru undirritaðir við Tölvufræðsluna, Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri og VMA og voru þeir undirritaðir á Glerártorgi til að undirstrika mikilvægi fyrir atvinnulífið. Samkomulag við VMA var lykill að velgengni fólks til að fara á milli skólastiga. Ég vil þakka stjórnendum og kennurum VMA fyrir mjög gott samstarf frá stofnun SÍMEY. Fleiri aðilar bættust í hópinn og stofnaðir voru fyrirtækjaskólar á borð við ÚA-skólann, sem var sá fyrsti í langri röð slíkra. Þannig starfaði SÍMEY fyrstu árin.

Festan hefur verið mikil hjá SÍMEY á þessum 25 árum. Fyrstu tvö árin var miðstöðin í húsnæði við Glerárgötu 36. Þá tók SÍMEY á leigu gamla hlutann hér í Þórsstíg af Akureyrarbæ en Rafveita Akureyrar var hér til húsa um langt árabil. Síðan keypti Höldur bílaleiga húsnæðið. Eftir því sem starfsemin óx fór að þrengja að okkur. Þá byggði Höldur þá viðbyggingu sem við stöndum í nú – og hún var bókstaflega klæðskerasniðin að okkar óskum. Hér höfum við verið síðan og verðum örugglega lengi enn – alla vega á meðan Höldur sér um okkur. Vil ég einnig nota tækifærið og þakka Höldi samstarfið í rúma tvo ártugi.

Einungis fjórir framkvæmdastjórar hafa verið hjá SÍMEY frá upphafi, eins og fram hefur komið. Starfsmannaveltan hefur heldur ekki verið mikil að öðru leyti því meðal starfsaldur starfsmanna er rúm 10 ár. Það er býsna vel að verki staðið og segir heilmikið um vinnustaðinn og starfsandann. Stjórnin hefur líka ávallt verið samstíga. Þar hafa átt sér stað eðlilegar breytingar í tilnefningum eftir landslaginu hverju sinni.

SÍMEY hefur notið fjárframlags frá menntamálaráðuneytinu frá stofnun og ber að þakka fyrir það. Um leið má ekki gleyma því að stofnaðilar styrktu SÍMEY myndarlega í upphafi.

Samstarf við aðrar símenntunarmiðstöðvar á landinu hefur alltaf verið gott. SÍMEY er næst yngsta símenntunarmiðstöðin en þær eru nú ellefu talsins. Regnhlífarsamtök símenntunarstöðva báru áður heitið KVASIR en nú heita samtökin SÍMENNT.

Strax árið 2002 voru 58 námskeið í boði hjá SÍMEY, frá tíu aðilum. Fjölbreytnin var mikil en tungumála- og tölvukennsla var vinsælust. Fyrsti fjarfundabúnaðurinn var keyptur árið 2003 enda hefur SÍMEY alltaf lagt ríka áherslu á að vera í fremstu röð á sviði tæknilausna.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var stofnuð árið 2002. Sama ár var gerður þjónustusamningur við Fræðslumiðstöðina um að annast verkefni á sviði framhaldsfræðslunnar. Fræðslumiðstöðin hefur frá upphafi haft með höndum gerð námskráa og framkvæmd raunfærnimats sem viðurkenndir fræðsluaðilar um allt land byggja námsframboð sitt á. Sömu aðilar bjóða náms- og starfsráðgjöf fyrir markhópinn.

Lög um framhaldsfræðslu tóku gildi árið 2010 en framhaldsfræðslan er fimmta grunnstoð menntakerfisins. Lögunum var ætlað að skapa fullorðnum einstaklingum með stutta formlega skólagöngu námstækifæri og auðvelda þeim að hefja nám að nýju.

Raunfærnimat hefur fengið opinbera viðurkenningu á alþjóðavettvangi eftir að Bologna-yfirlýsingin um óformlega fræðslu var gefin út árið 1999. Í flestum tilfellum snúa viðurkenningar á raunfærnimati að verðmæti eða gæðum þeirra aðila sem hafa umsjón með og votta ferlið.

Þegar raunfærnimat hófst á Íslandi árið 2007 var auðveldast að meta samkvæmt námskrám iðngreina á framhaldsskólastigi sem þegar lágu fyrir. Síðan þá hefur mjög mikil þróun átt sér stað og raunfærnimatið er nú meðal stærstu liða í starfi SÍMEY. Með raunfærnimati hefur fjöldi einstaklinga fengið viðurkenningu á þeirri þekkingu sem þeir búa yfir og opnað á frekara nám og tækifæri fyrir þá á vinnumarkaði.

Til marks um hversu viðamikil þessi starfsemi er má nefna að alls hafa um 900 einstaklingar farið í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY frá árinu 2010 – eða um 55 á hverju ári. Fjöldi náms- og starfsráðgjafarviðtala er 10 sinnum meiri á sama tíma. Viðtölin eru tæplega 9.000 eða um 600 viðtöl ár hvert.

Rýnum aðeins betur í tölfræðina. Fyrst vil ég þó slá varnagla og segja að tölfræði er stundum vandmeðfarin og þarfnast greiningar. Önnur viðmið voru notuð á fyrstu árum SÍMEY og námskeið þá reiknuð yfir í nemendastundir. Það er hins vegar mjög auðvelt að taka saman nákvæma tölfræði síðustu 15 ára, eins og ég hef gert hér að framan. Tölurnar um fjölda náms- og starfsráðgjafarviðtala sem og fjölda þeirra sem farið hafa í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY eru vissulega háar og segja sína sögu um magnaða starfsemi.

Sú tala sem er þó mögnuðust að mínum dómi er fjöldi þátttakenda í námi hjá SÍMEY frá árinu 2010. Þeir voru alls um 43.800 talsins eða um 2.920 ár hvert. SÍMEY er því sú menntastofnun á Norðurlandi – og þó víðar væri leitað – sem útskrifar flesta nemendur ár hvert. Þessar tölur segja meira en mörg orð um víðfeðmi starfseminnar og fjölmarga snertifleti hennar, bæði gagnvart einstaklingum og atvinnulífinu.

Ég vil enn fremur nefna samstarf SÍMEY við nágrannasveitarfélögin. SÍMEY hefur rekið námsver á Dalvík um langt árabil í góðu samstarfi við Dalvíkurbyggð og haldið námskeið víða út með firði. Ég vil líka nefna afar ánægjulegt samstarf við Guðmund Ármann og Bryndísi Arnardóttur, Billu, en þau buðu árum saman upp á námskeiðið „Fræðsla í formi og lit“ sem fæddi af sér frábært listafólk og auðgaði andann. Öllum öðrum kennurum sem hafa verið tilbúnir að koma og kenna og byggja upp námsleiðir þakka ég líka.

Árið 2012 settu stjórn og starfsmenn niður gildi SÍMEY. Þau eru TÆKIFÆRI – STYRKUR – TRAUST – SVEIGJANLEIKI. Þessi kjörorð endurspegla mjög vel fyrir hvað Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar stendur.

Ég nefndi hér áðan ýmsa samstarfsaðila SÍMEY. Tölvufræðslan Akureyri varð samstarfsaðili SÍMEY strax í upphafi, með Helga Kristinsson í broddi fylkingar. Það samstarf var blómlegt í nær tvo áratugi og Helgi var starfsmaður SÍMEY síðustu árin uns hann lét af störfum vegna aldurs 2023. Meðal annarra samstarfsaðila má nefna Starfsendurhæfingu Norðurlands, sem var fyrstu ár sín til húsa hér í Þórsstígnum og Fjölmennt, sem einnig var hér til húsa.

Of langt mál yrði að telja þau fjölmörgu fyrirtæki og stofnanir sem hér hafa haldið námskeið, fundi og ráðstefnur í nánu samstarfi við SÍMEY. Allt þetta er til marks um það blómlega starf sem hér fer fram.

Mörg undanfarin ár hefur verið unnið að endurskoðun laga um framhaldsfræðsluna en þeirri vinnu hefur miðað mjög hægt. Ljóst er að framhaldsfræðslan mun gegna sífellt stærra hlutverki á tímum hraðra breytinga, tæknivæðingar og aukinnar fjölbreytni í samfélaginu. Framhaldsfræðslan hefur í auknum mæli verið mikilvægt akkeri í fjölmenningarsamfélaginu á Íslandi og hún hefur líka verðugu hlutverki að gegna á tímum hraðra samfélagsbreytinga og gervigreindar. Við köllum eftir því að stjórnvöld sjái þetta mikilvæga hlutverk og geri framhaldsfræðsluna að lykilþætti í mótun menntastefnu landsins.

Góðir gestir.

Við sameinumst í því að fagna fortíðinni og horfum bjartsýn fram á veginn. Takk fyrir að vera hluti af þessari ótrúlegu sögu. Allir þeir sem hafa lagt hönd á plóg á þessari 25 ára vegferð eiga þakkir skildar. Aftur og enn, fyrrum stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, starfsfólk og þið öll sem hafið verið þátttakendur í leik og námi hjá SÍMEY. Sérstakar þakkir fær starfsfólk SÍMEY við undirbúning á þessum merkisdegi.

Á næstu árum mun Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar halda áfram að þróa og bæta þjónustuna. Áherslan verður sem fyrr á gildi SÍMEY: TÆKIFÆRI, STYRK, TRAUST og SVEIGJANLEIKA.