Orð eru til alls fyrst

Inda Björk Gunnarsdóttir, skólastjóri leikskólans Kiðagils á Akureyri. Mynd: Akureyrarbær/Daníel Sta…
Inda Björk Gunnarsdóttir, skólastjóri leikskólans Kiðagils á Akureyri. Mynd: Akureyrarbær/Daníel Starrason.

„Fyrirlestrar Kristínar Helgu hafa svo sannarlega vakið okkur til umhugsunar um skaðsemi plasts og hvaða efni séu í því. Í framhaldinu höfum við rætt um að stefna að því að Kiðagil verði fyrsti eiturefnalausi leikskólinn á Akureyri. Þetta er stórt skref að taka en til þess að ná settu marki er rétt að taka mörg lítil skref. Fyrsta skrefið var að fá Kristínu á síðasta ári til þess að taka þessa umræðu við foreldra barnanna á leikskólanum okkar. Hluti starfsfólks leikskólans var síðan á sambærilegu vefnámskeiði sem Kristín var með á vegum SÍMEY og Þekkingarnets Þingeyinga fyrir nokkrum vikum og ég stefni að því að allir starfsmenn hér geti notið þessarar fræðslu Kristínar Helgu því hún vekur okkur öll til umhugsunar um svo fjölmargt í okkar daglega lífi,“ segir Inda Björk Gunnarsdóttir, skólastjóri á leikskólanum Kiðagili á Akureyri.

Mikilvægt að taka umræðuna

„Mér finnst skipt miklu máli að við öll tökum þátt í þessari umræðu og veltum hlutunum fyrir okkur því svo margt hefur breyst í okkar daglega lífi á síðustu árum,“ segir Inda Björk.
„Hér í leikskólanum Kiðagili byrjuðum við á að taka út dót og hluti sem ekki eru ætlaðir fyrir börn, eins og t.d. notaða síma og notuð lyklaborð sem við höfðum fengið að gjöf og við notuðum í hina ýmsu hlutverkaleiki. Við höfum notað plastperlur sem hafa nýst vel við þjálfun á fínhreyfingar hjá krökkunum. Við höfum ekki tekið ákvörðun um að taka þær út en hins vegar að strauja þær minna en áður og endurnýta þær meira.“
Almennt telur Inda Björk að þurfi í auknum mæli að horfa til endurnýtingar hluta á leikskólum, rétt eins og á heimilunum, og skoða vel efnainnihald þess sem keypt er nýtt inn á leikskólana. Framleiðendur fái svansvottun á framleiðslu sína og til þessara vottuðu vara sé ástæða til að líta í auknum mæli.
Inda Björk segir ekki nóg að starfsfólk leikskólanna venji börnin við ákveðna hluti í umhverfismálunum, það þurfi ekki síður að ná til foreldranna. Þess vegna hafi hún fengið Kristínu Helgu Schiöth til þess að halda fyrirlestur fyrir foreldra barnanna á Kiðagili. Eitt og annað í máli hennar hafi vakið foreldra til umhugsunar, t.d. um óæskileg íblöndunarefni í mjúku plasti og ekki sé æskilegt að hita mat í plastumbúðum enda verði við það ákveðnar efnabreytingar í plastinu.
„Í eldhúsinu okkar og matsalnum notum við og höfum alltaf notað glerdiska og matinn setjum við í glerform og einnig notum við gler- og álskálar fyrir súpur. Og við pössum vel upp á að bretti, ausur og sleifar og fleiri áhöld séu úr viðurkenndu plasti til að meðhöndla matvæli.
Næstu skref hjá okkur í þessu verkefni er að fara í gegnum daglegt starf á öllum fjórum deildum leikskólans og gaumgæfa hvaða hluti við erum að nota og hvað það er sem við getum breytt í þeim efnum. Umhverfismál eru og verða eitt af stóru málunum í framtíðinni og þau snerta allt okkar daglega líf. Í þessu eins og öðru eru orð til alls fyrst,“ segir Inda Björk Gunnarsdóttir.

LOFTUM umhverfis- og loftlagsverkefnið

Eins og komið hefur fram er LOFTUM umhverfis- og loftlagsverkefnið, sem SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga hafa unnið að frá því á síðasta ári, áhersluverkefni innan SSNE – samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Í þessu verkefni liggur fyrir áætlun um fræðslu í umhverfis- og loftlagsmálum til starfsmanna og kjörinna fulltrúa sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Í september sl. var staðnámskeiðið Grænir leiðtogar í SÍMEY og í lok október og byrjun nóvember var Kristín Helga Schiöth, verkefnisstjóri á sviði umhverfis- og loftlagsmála hjá SSNE, með þrjú vefnámskeið fyrir starfsmenn leik- og grunnskóla á svæðinu undir yfirskriftinni Efni í umhverfi barna. Námskeiðið byggði hún að töluverðu leyti á ráðleggingum og tilmælum í umhverfismálum í Svíþjóð og Danmörku til skólastofnana og almennings. Kristín Helga velti því upp hvers vegna það skipti máli að vera á varðbergi um efnin sem eru í umhverfinu með hag og heilsu barnanna okkar að leiðarljósi. Spurningarnar sem hún varpaði fram voru m.a. hvar skaðleg efni leynist í umhverfi barna, hvernig best sé að draga úr efnaáreiti á börn og hvernig unnt sé að efla það sem kalla má efnalæsi okkar.