Nýtt nám í velferðartækni í SÍMEY

Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, leiðbeinir nemendum í fyrstu kennslustundinni í…
Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, leiðbeinir nemendum í fyrstu kennslustundinni í námi í velferðartækni.

Á dögunum hófst í SÍMEY nám í velferðartækni og reyndar er þetta í fyrsta skipti sem slíkt nám er í boði hér á landi. Um er að ræða tilraunaverkefni sem er fjármagnað með styrk frá velferðarráðuneytinu. Í framhaldinu er stefnt að því að þetta nám verði reglulega í boði.

Námið á sér þá forsögu að fyrir tæpum fjórum árum var unnið stefnuskjal um þróun í velferðarþjónustu og var í framhaldinu auglýst eftir styrkjum til þess að þróa nám í velferðartækni. Öldrunarheimili Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborg sóttu um styrk og að verkefninu hafa síðan komið bæði SÍMEY og Framvegis – miðstöð símenntunar í Reykjavík. Komið var á fót rýnihópi til þess að setja upp ramma um námið. Gerð voru drög að námsskrá sem Menntamálastofnun og starfsgreinaráð hafa lagt blessun sína yfir.

Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, segir afar ánægjulegt að þetta nám sé nú hafið í tilraunaskyni hjá SÍMEY. Hann segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að skort hafi slíkt nám og hann segist þess fullviss að reynslan af því verði góð. Ætlunin sé að þróa námið áfram og mögulegar breytingar á uppsetningu þess taki mið af óskum og ábendingum þeirra tæplega tuttugu nemenda sem séu í þessum fyrsta námshópi í velferðartækni hjá SÍMEY. Í honum eru starfsmenn á Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar, frá Félagsþjónustu Akureyrarbæjar og Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Námið er 40 kennslustundir og er miðað við að nemendur hittist tvisvar, í upphafi og í lok námsins sem verður í mars. Stærstur hluti námsins verður verður vinna fjölbreyttra verkefna sem kennarar miðla til nemenda í gegnum Innu.

Tilgangur náms í velferðartækni er að efla þekkingu og auka hæfni þeirra sem starfa eða hafa hug á að starfa við velferðarþjónustu. Meðal annars er horft til þess að fólk öðlist færni og þekkingu til þess að takast á við nýsköpun í tækni í velferðarþjónustu er nýtist við umönnun, verklega aðstoð, vinnu með hjálpartæki, skipulag á heimilum, þjálfun, endurhæfingu, sérkennslu og atvinnu með stuðningi.

Í náminu er meðal annars hugað að því hvaða áhrif velferðartækni hafi á fólk, hvernig sé unnt að innleiða ný vinnubrögð og nýta lausnir sem hjálpi fólki að takast á við daglegt líf og stuðla almennt að heilbrigði og lífsgæðum.