Ný og jákvæð sýn á starfsemi símenntunarmiðstöðva

Helga Rós Sigfúsdóttir.
Helga Rós Sigfúsdóttir.

Síðustu þrjá daga hafa þær Helga Rós Sigfúsdóttir og Arna Jakobína Björnsdóttir, sem stunda nú nám í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands, verið í vettvangsnámi í SÍMEY þar sem þær hafa kynnt sér starfsemina frá ýmsum hliðum.

Arna Jakobína býr og starfar á Akureyri en Helga Rós er Skagfirðingur og býr og starfar í Varmahlíð. Hún er grunnskólakennari að mennt og hefur síðustu sex ár kennt við Varmahlíðarskóla.

Hjá SÍMEY voru þær stöllur undir handleiðslu Önnu Lóu Ólafsdóttur, verkefnastjóra hjá SÍMEY, sem jafnframt er náms- og starfsráðgjafi.  Helga Rós segir að liður í náminu í HÍ sé vettvangsnám. Nú þegar hafi hún kynnt sér starf náms- og starfsráðgjafa í grunnskóla og nú hafi röðin verið komin að því að kynnast starfsemi náms- og starfsráðgjafa í símenntunarmiðstöð. „Við hittum alla starfsmenn SÍMEY og þeir sögðu okkur frá því í hverju þeirra starf felst. Ég hef verið að kenna við grunnskóla og viðurkenni það fúslega að ég hafði ekki mikla hugmynd um hvað fælist í starfsemi símenntunarmiðstöðvar eins og SÍMEY og hafði kannski ekki miklar væntingar. En þessir dagar hjá SÍMEY voru frábærir og veittu mér algjörlega nýja og jákvæða sýn á það sem fram fer hjá símenntunarmiðstöðvunum. Það var mjög ánægjulegt að sjá hversu vel starfsfólkið vinnur saman og starfsemin er mun víðtækari og fjölbreyttari en ég hélt. Sem grunnskólakennari undanfarin sex ár er ég án efa mjög skólamiðuð, ef svo má segja, og átti erfitt með að hugsa út fyrir rammann. En þetta veitti mér alveg nýja sýn á hlutina og það var mjög lærdómsríkt,“ segir Helga Rós.

Hún útskrifaðist sem grunnskólakennari árið 2010 og fór þá strax að kenna. En ákvað síðan í upphafi þessarar haustannar að hella sér í meistaranám í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands og púslar því saman með 85% kennslustöðu í Varmahlíðarskóla. Það er ekki alltaf auðvelt því ekki er boðið upp á fjarnám og því eru ferðirnar ófáar suður yfir heiðar. „Þetta er auðvitað töluvert mál því til viðbótar við grunnskólakennsluna á ég tvö lítil börn. En þetta hefst allt saman með góðu baklandi,“ segir Helga Rós og stefnir að því að starfa sem náms- og starfsráðgjafi að loknu námi, enda sé almennt mikill skortur á þeim.