Nítjánda suðunámskeiðið

Níu af tíu þátttakendum á TIG-suðu námskeiðinu með kennurunum Kristjáni Kristinssyni og Stefáni Finn…
Níu af tíu þátttakendum á TIG-suðu námskeiðinu með kennurunum Kristjáni Kristinssyni og Stefáni Finnbogasyni. Fyrir framan nemendur og kennarana eru fjögur af þeim ferðagrillum sem voru smíðuð á námskeiðinu.

Í dag lauk nítjánda suðunámskeiðinu sem SÍMEY hefur staðið fyrir síðan 2013. Sem fyrr voru kennarar á námskeiðinu Kristján Kristinsson og Stefán Finnbogason, kennarar við málmiðnbraut Verkmenntaskólans á Akureyri. Námskeiðið var í húsnæði málmiðnbrautar VMA.

Suðunámskeiðin hafa frá upphafi verið mjög vel sótt og jafnan er biðlisti á þau, slíkur er áhuginn. Eitt námskeið er haldið á vorönn og annað á haustönn og eru þrjár suðuaðferðir kenndar - ein á hverju námskeiði - TIG-suða, pinnasuða og MIG-MAG suða. Á námskeiðinu sem lauk með formlegum hætti í dag með afhendingu staðfestingarskjala og grillveislu var TIG-suða kennd. Á haustönn 2023 verður pinnasuða kennd, á vorönn 2024 MIG-MAG o.s.frv. Að hámarki eru tíu manns á hverju námskeiði og er það 80 klukkustundir. Kennt er í fimm vikur, tuttugu skipti, fjóra tíma í senn.

Kristján Kristinsson kennari segir að þátttakendur séu alltaf mjög áhugasamir og þess séu mörg dæmi að fólk taki öll þrjú námskeiðin. Hann segir marga þátttakendur ekki þekkja neitt til málmsuðu þegar þeir komi á námskeiðin en aðrir hafi reynt fyrir sér í suðu en vilji bæta við þekkinguna. 

Á TIG-suðu námskeiðunum er aðal smíðaverkefnið ferðagrill en einnig er glímt við minni smíðaverkefni.

Þessi námskeið njóta sérstöðu í framhaldsfræðslu á Íslandi því SÍMEY er eina símenntunarmiðstöðin sem býður upp á þau. Forsenda námskeiðanna er sú góða aðstaða og tæki og tól sem eru til staðar í kennsluhúsnæði VMA og hinir reynslumiklu kennarar, Kristján og Stefán.

Það var létt yfir mannskapnum í dag á lokadegi TIG-námskeiðsins enda gott dagsverk að baki og heilmikil þekking í málmsuðu komin í bakpokann. Punkturinn var settur yfir i-ið með grillveislu og Helgi Þ. Svavarsson, verkefnastjóri í SÍMEY, afhenti suðufólkinu viðurkenningarskjöl til staðfestingar á þátttöku þeirra í námskeiðinu.