Námskeið SÍMEY í íslensku sem annað mál fá háa einkunn þátttakenda

Rösklega hundrað manns voru á íslenskunámskeiðum SÍMEY sem annað mál á vorönn 2019 og svipaður fjöld…
Rösklega hundrað manns voru á íslenskunámskeiðum SÍMEY sem annað mál á vorönn 2019 og svipaður fjöldi er á íslenskunámskeiðunum á þessari önn. Námskeiðin fá góða umsögn þátttakenda.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er mikil aðsókn á námskeið SÍMEY í íslensku sem annað mál. Á þessari önn eru námskeiðshóparnir þrettán og eru námskeiðin kennd á Akureyri, Grenivík, Dalvík og í Fjallabyggð. Samtals eru rösklega hundrað manns á íslenskunámskeiðum á þessari önn. Það sama var upp á teningnum á vorönn 2019, þá voru íslenskunámskeiðin vel sótt.

Eins og jafnan er gert eftir hverja önn er farið yfir reynsluna af kennslunni með íslenskukennurunum, hvað hafi gengið vel og hvað megi mögulega betur gera. Á dögunum hittust verkefnastjórar í SÍMEY og íslenskukennararnir sem kenna á þessum námskeiðum í SÍMEY og báru saman bækur sínar um vorönn 2019. Meðal annars var farið yfir námskeiðsmat þátttakenda, sem hver og einn nemandi skilar í lok hvers námskeiðs.

Samkvæmt niðurstöðum námskeiðsmats fyrir vorönn 2019 fá þessi íslenskunámskeið mjög góða umsögn þátttakenda. Á skalanum frá 1 upp í 5 gáfu nemendur einkunnina 4,6 að meðaltali þegar þeir voru spurðir um álit þeirra á námsefninu og hvernig það nýttist þeim. Einkunnina 4,4 gáfu nemendur við spurningunni um hvernig þeir teldu að námið nýttist þeim en lægsta einkunnin, 4,1-4,2, var gefin við spurningunni um hvernig nemendum hafi tekist að finna upplýsingar um námskeiðin og að skrá sig á þau.

Kennararnir sem kenna á íslenskunámskeiðunum hjá SÍMEY eru mjög reynslumiklir. Flestir hafa kennt til fjölda ára og hafa full kennararéttindi, að einum frátöldum sem er núna í réttindanámi samhliða kennslunni. Byggst hefur upp mikil þekking og reynsla á kennsluaðferðum í íslenskukennslunni, en eðli málsins samkvæmt er námið oft og tíðum einstaklingsmiðað – ekki síst á grunnnámskeiðunum.

Áfram verður haldið á sömu braut á vorönn en þó verður sú breyting á, til þess að auðvelda fólki námskeiðsmatið, að í stað þess að fylla það út á blaði verður það eftirleiðis rafrænt og á fimm tungumálum; íslensku, ensku, tælensku, rússnesku og pólsku.

Það segir sína sögu um mikilvægi kennslu í íslensku sem annað mál að þann 1. nóvember sl. voru samkvæmt gögnum Þjóðskrár um 49 þúsund erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi og hafði fjölgað um tæplega fimm þúsund eða um 11% á síðustu ellefu mánuðum. Á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sem eru búsettir hér á landi um 0,6%. Pólverjar eru fjölmennastir erlendra ríkisborgara á Íslandi eða rösklega 20 þúsund og þar á eftir eru Litháar um 4.600. Frá 1. desember á síðasta ári hefur Pólverjum á Íslandi fjölgað um 7% og Litháum um 12%. Samkvæmt þessum tölum Þjóðskrár eru rösklega 13% fólks á Íslandi erlendir ríkisborgarar.