Nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú viðurkennt til launahækkunar

Frá árinu 2010 hefur Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar boðið upp á nám sem hefur verið nefnt  leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Námið er ætlað ófagmenntuðu fólki í leik- og grunnskólum. Þangað til undir lok síðasta árs var þetta nám ekki metið til launa, þ.e. þeir sem luku því fengu það ekki viðurkennt til hækkunar í launatöflu, en skömmu fyrir áramót náðist þetta loksins í gegn í nýjum kjarasamningi og bókun Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins og héðan í frá hækka laun allra þeirra sem ljúka þessu námi.

Hildur Bettý Kristjánsdóttir og Valgeir Blöndal Magnússon, verkefnastjórar hjá SÍMEY, segja það mikið fagnaðarefni að tekist hafi eftir nokkurra ára baráttu að fá nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú viðurkennt til hækkunar launa viðkomandi starfsfólks.

Áðurnefnt samkomulag kveður á um að þessi launaflokkshækkun er afturvirk til 1. maí á síðasta ári og nær hún til þeirra rösklega 50 sem hafa lokið slíku námi hjá SÍMEY. Stór hluti þeirra starfar í leik- og grunnskólum á Akureyri.

Til þess að námið, sem tekur fjórar annir, sé metið til launahækkunar þarf að skila ákveðnum lágmarksfjölda eininga og þar að auki eru fagtengd námskeið og/eða starfsreynsla metin til eininga. Í framtíðinni miðast leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú – þ.m.t. fagtengd námskeið og/eða starfsreynsla – við 70 einingar.

Til þess að innritast á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú þurfa nemendur að vera 22ja ára gamlir og hafa að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu af viðkomandi starfssviði. Þeir sem ljúka náminu fá starfsheitin leikskólaliði og stuðningsfulltrúi.

SÍMEY er alltaf með í boði nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú og fer kennslan fram í húsnæðinu við Þórstíg. Auk þess tekur SÍMEY nú þátt í tilraunakennslu ásamt Farskólanum – Miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar sem um 40 nemendur taka þetta nám í fjarnámi. Kennt er í gegnum Skype for Business. Námið er skipulagt sem svokallað ,,vendinám" eða  ,,spegluð kennsla", sem þýðir m.a. að nemendur hlusta á fyrirlestra um efnið heima, áður en þeir hittast til verkefnavinnu í kennslustundum í námsverunum í Eyjafirði, Skagafirði, á Blönduósi, Hólmavík og Ísafirði.

Næsta haust er áætlað að byrja með nýjan hóp í fjarnámi – sjá upplýsingar hér.