Menntun er lífsins vegferð - vorbrautskráning SÍMEY 6. júní

Brautskráningarnemar í húsakynnum SÍMEY 6. júní sl. Mynd: Kristín Björk Gunnarsdóttir.
Brautskráningarnemar í húsakynnum SÍMEY 6. júní sl. Mynd: Kristín Björk Gunnarsdóttir.

„Það er ætíð gleðiefni að ljúka áföngum í lífinu, að ljúka námi, af hvaða tagi sem er, þá er tími til að staldra við, líta yfir farinn veg og ígrunda aðeins hverju við höfum bætt við okkur. Nám er ekki bara hið „námslega“ eða „bóklega“, það er líka sú staðreynd að hafa tekið skrefið, að hafa kynnst nýju fólki, farið út fyrir kassann, tekist á við nýjungar og tekist á við nýja tækni. Framhaldsfræðslan á að vera nákvæmlega vettvangur fyrir þetta, að veita fullorðnu fólki svigrúm til að finna sjálft sig í viðeigandi umhverfi þar sem það hefur ráðrúm til að tengja saman námsvettvang og sinn reynsluheim og þekkingu,“ sagði Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, m.a. í ávarpi á brautskráningu í húsakynnum SÍMEY 6. júní sl.

Fyrir nokkrum árum voru formlegar brautskráningar í desember og að vori jafnan mun fjölmennari. Á síðustu árum hefur þetta breyst. Covid-faraldurinn breytti kennsluháttum, í ríkari mæli hefur námið færst yfir í netheima og nemendur eru útskrifaðir að loknum námslotum. Þetta á t.d. við um íslenskunámskeið, mörg námskeið innan fyrirtækjaskóla og almennt námskeiðahald. Í flestum tilfellum eru nemendur útskrifaðir við lok námsins. Með öðrum orðum; síður en svo hefur dregið úr námskeiðahaldi og fjölda nemenda en námsfyrirkomulagið hefur tekið breytingum og punkturinn er settur yfir i-ið með brautskráningu við lok margra námsleiða.

Það segir sína sögu að heildarfjöldi þeirra sem njóta þjónustu SÍMEY á ári lætur nærri að vera um þrjú þúsund manns – í námi, raunfærnimati og ráðgjöf. Sem næst 150 manns koma að starfinu hjá SÍMEY á ári hverju á einn eða annan hátt, með kennslu eða öðru.

Að þessu sinni brautskráði SÍMEY nemendur sem voru að ljúka námi í Menntastoðum, sem öðru fremur hefur áherslu á kjarnagreinar og býr nemendur undir nám í framhaldsskóla. Þá brautskráðust nemendur úr sölu-, markaðs- og rekstrarnámi, myndlistarnámi (Fræðsla í formi og lit), af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú og félagsliðagátt.

Ávarp brautskráningarnema

Ingþór Örn Valdimarson flutti ávarp fyrir hönd brautskráningarnema. Ingþór brautskráðist af félagsliðagátt. 

Kæru kennarar, samnemendur og fjölskylda!

Góðan daginn og velkomin á þessa stund, þar sem við fögnum áfanga okkar og árangri.

Ég vil byrja á að segja ykkur aðeins frá sjálfum mér. Ég er 40 ára gamall og hafði í rauninni aldrei hugsað mér að fara aftur í skóla. En eins og svo oft gerist í lífinu, þá kom eitthvað óvænt upp á. Ég sá auglýsingu frá SÍMEY um félagsliðanám og ákvað að slá til. Það var kannski ekki alveg fyrirfram ákveðið, en það reyndist vera eitt besta skref sem ég hef tekið.

Eftir frábært viðtal við starfsfólk SÍMEYJAR, þar sem ég fann fyrir miklum stuðningi og fagmennsku, skráði ég mig í félagsliðanámið. Og það stoppaði ekki þar; ég skráði mig einnig í framhaldsskóla til að ljúka stúdentsprófi. Það sem kom mér mest á óvart var hversu mikið ég naut námsins. Það var ekki bara skemmtilegt, heldur var einnig haldið mjög vel utan um nemendur. Samskiptin við starfsmenn SÍMEYJAR voru góð og örugg og ég fann að þeir höfðu virkilega áhuga á velgengni okkar allra. Þessi reynsla hefur kveikt í mér menntaneista sem ég hélt að hefði aldrei verið til staðar og er ég er nú þegar ákveðinn í að halda áfram í háskólanám og ég gæti vel hugsað mér að stunda frekara nám á vegum SÍMEYJAR. Þau hafa sýnt mér að menntun er lífsins vegferð og að það er aldrei of seint að byrja aftur.

Ég vil sérstaklega þakka Helga og Helenu fyrir aðstoðina í gegnum þetta ferðalag. Ykkar stuðningur og hvatning hefur verið ómetanlegur. Einnig vil ég þakka kennurum okkar sem gerðu námið ekki bara fræðandi heldur líka skemmtilegt.

Þegar ég lít til baka á þetta ferðalag er ég gríðarlega sáttur og get sagt að þetta hafi farið fram úr öllum mínum vonum. Það er með djúpu þakklæti sem ég segi: takk fyrir að hafa verið með mér á þessari ferð og ég hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

Takk fyrir mig og til hamingju með daginn!