"Mannlegi millistjórnandinn" í boði í haust

Þátttakendur á fyrsta
Þátttakendur á fyrsta "Mannlegi millistjórnandinn" námskeiðinu á Akureyri á vorönn 2017. Mynd: Hagvangur.

Núna á vorönn bauð SÍMEY í fyrsta skipti upp á námskeiðið „Mannlegi millistjórnandinn“ í samvinnu við Hagvang. Ellefu þátttakendur voru á námskeiðinu frá Akureyri og úr nágrannabyggðum. Námskeiðið fékk almennt afar jákvæða umsögn þátttakenda. „Mannlegi millistjórnandinn“ verður aftur á dagskrá í haust.

Helsta markmiðið með námskeiðinu er að styrkja nýja stjórnendur og millistjórnendur fyrirtækja og stofnana í daglegum störfum sínum. Námskeiðið er í fjórum lotum. Í fyrsta lagi er farið í svokallaða orkustjórnun þar sem áherslan er á hvernig stjórnandinn getur nýtt hana til að auka gæði vinnunnar, afköst og framlegð og um leið aukið starfsgleði og stuðlað að auknu heilbrigði sínu og sinna starfsmanna. Í annan stað er horft til mannauðsstjórnunar - hlutverks millistjórnandans og daglegra viðfangsefna hans í tengslum við stjórnun fólks. Í þriðja lagi er fjallað um samskipti - ábyrgð einstaklinga þegar kemur að samskiptum og mikilvægi þess að vera meðvitaður um eigin samskiptatækni. Í fjórða lagi er fjallað um um leiðtogann og þjónandi forystu, m.a. hvernig stjórnendur vinni starfsfólk á sitt band og laði fram það besta í hverjum starfsmanni.

Erla Björnsdóttir verkefnastjóri í tölvu- og upplýsingadeild Sjúkrahússins á Akureyri var ein þeirra sem sótti fyrsta „Mannlegi millistjórnandinn“ námskeiðið núna á vorönn. Hún segir að námskeiðið hafi verið afskaplega lærdómsríkt og nýtist tvímælalaust vel bæði stjórnendum og millistjórnendum í fyrirtækjum og stofnunum. Erla, sem vinnur m.a. að gæðamálum er lýtur að rafrænni sjúkraskrá, er í miklum mannlegum samskiptum á sínum vinnustað, enda er hún verkefnastjóri þvert á allar deildir sjúkrahússins. Hún segir að námskeiðið nýtist sér mjög vel en telur að ekki hefði sakað þótt farið hefði verið dýpra í samskiptamál, þau hafi verið og séu æ stærri þáttur í starfi stjórnenda og millistjórnenda.

Hér eru nánari upplýsingar um „Mannlega millistjórnandann og skráning á næsta námskeið sem hefst í september nk.