LOFTUM - verkefni í loftslags- og umhverfismálum

Það er heldur betur að mörgu að hyggja í loftslags- og umhverfismálum á 21. öldinni. LOFTUM verkefni…
Það er heldur betur að mörgu að hyggja í loftslags- og umhverfismálum á 21. öldinni. LOFTUM verkefnið tekur til margra ólíkra þátta á þessum málaflokki.

Nýverið fékk LOFTUM verkefnið aukið fjármagn úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra til þess að bjóða í haust upp á fræðslu í loftslags- og umhverfismálum fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa sveitarfélaga sem eiga aðild að SSNE - samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

Í þjóðfélagsumræðunni stækkar hlutur loftslags- og umhverfismála með hverju árinu enda er þessi málaflokkur án vafa einn af þeim viðameiri á 21. öldinni.

Þekkingarnet Þingeyinga og SÍMEY fengu á síðasta ári styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra til að greina fræðsluþarfir starfsfólks og kjörinna fulltrúa sveitarfélaga á starfssvæði SSNE. Nafn verkefnisins, LOFTUM, vísar til loftslags- og umhverfismála og var það valið sem áhersluverkefni innan SSNE. Af hálfu SÍMEY vinna að verkefninu verkefnastjórarnir Ingunn Helga Bjarnadóttir og Kristín Björk Gunnarsdóttir.

Til þess að greina fræðsluþarfirnar var settur á stofn stýrihópur skipaður fulltrúum sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum sem aðild eiga að SSNE og einnig komu að þessari vinnu hinir ýmsir sérfræðingar, t.d. frá Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun og Landvernd, auk fulltrúa SSNE. Stýrihópurinn vann drög að fræðslugreiningu og hún var síðan send til starfsfólks sveitarfélaga í landshlutanum og kjörinna fulltrúa og kallað eftir fræðsluþörf í málaflokknum. Fræðslugreiningin var tvíþætt,  annars vegar almennt um loftslags- og umhverfismál og hins vegar varðandi ýmsa afmarkaða þætti í loftslags- og umhverfismálum, t.d. skipulagsmál, orkumál, veitur, loftgæði, frárennsli, sorpmál o.fl.

Á þessu ári er áfram unnið að verkefninu með nánari greiningu rýnihópa, sem einnig eru skipaðir starfsmönnum sveitarfélaga og kjörnum fulltrúum. Þeirri vinnu lýkur í vor og í kjölfarið lítur fræðsluáætlunin dagsins ljós. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að fræðslan sjálf hefjist á haustönn 2023.