Fjölbreytt og skemmtilegt

Helena Sif Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá SÍMEY.
Helena Sif Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá SÍMEY.

Helena Sif Guðmundsdóttir er nýr starfsmaður SÍMEY. Hún hóf störf um miðjan apríl sem náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri í 50% starfshlutfalli.

Helena Sif er fædd og uppalin á Akureyri „og hef alltaf búið hérna að frátöldu einu ári sem ég bjó í Danmörku. Ég lauk hefðbundinni grunnskólagöngu hér á Akureyri, brautskráðist síðan sem stúdent af listnámsbraut Verkmenntaskólans í desember 2012. Ég var síðan á vinnumarkaðnum allt árið 2013 en í janúar flutti ég til Danmerkur og fór þar í byggingafræðinám. Ég hafði á þeim tíma áhuga á arkitektúr og hönnun húsa og hef reyndar enn og það kveikti í mér að fara í byggingafræðina. Ég var þó bara í henni í tvær annir en lét þá gott heita og flutti aftur heim í janúar 2015. Árið 2016 tók ég nýja stefnu þegar ég hóf nám í sálfræði við Háskólann á Akureyri og lauk því í febrúar 2020. Ég hafði leitt hugann að því að fara áfram í klíníska sálfræði en það varð úr að ég hóf nám í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands haustið 2020. Það sem gerði útslagið var rafræn kynning sem ég sá á þessu námi og þar kom fram að hægt væri að taka námið að stærstum hluta í fjarnámi. Það hentaði mér mjög vel. Hefði ég valið klínísku sálfræðina hefðum við þurft að flytja suður og við vorum ekki til í það. Þegar upp er staðið sé ég alls ekki eftir að hafa valið þessa námsleið,“ segir Helena.

Þegar starf náms- og starfsráðgjafa hjá SÍMEY var auglýst segist Helena hafa ákveðið strax að sækja um enda hafi hún haft tækifæri til þess að kynnast starfsemi SÍMEY í 20 klukkutíma vettvangsviku á námstímanum í HÍ og því haft einhverja vitneskju um hvað í starfinu fælist.

„Mér finnst ég vera mjög heppin að hafa fengið þetta tækifæri því framhaldsfræðslan heillaði mig meira en námsráðgjöf í grunn- eða framhaldsskólum. Vissulega tekur það mig töluverðan tíma að setja mig inn í starfið en ég hef strax orðið þess áskynja að viðfangsefnin eru fjölbreytt og af ýmsum toga. Í starfinu felst m.a. að veita fólki ráðgjöf um nám og einnig er verkefnastjórn varðandi nám og námsframboð hluti af starfi mínu. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt og leggst vel í mig,“ segir Helena Sif Guðmundsdóttir.