Kynntu sér leyndardóma MIG-MAG málmsuðunnar

Einbeiting í MIG-MAG málmsuðu.
Einbeiting í MIG-MAG málmsuðu.

Fyrir sjö árum, í janúar 2017, kom Mohamad J. Naser til Akureyrar með fjölskyldu sinni frá Sýrlandi. Viðbrigðin voru að vonum mikil og fyrir fjölskylduna var landið eins framandi og öðruvísi og hugsast getur, menningin og hið daglega líf, að ekki sé talað um veðrið. En Mohamad var staðráðinn í að fóta sig í íslensku samfélagi og núna, sjö árum síðar, skilur hann íslenskuna prýðilega og talar hana eins og enginn sé morgundagurinn!

Vinnur hjá Norðurorku

Það segir sitt um áhuga Mohamads að læra tungumálið að hann fór á fjögur íslenskunámskeið á sínum tíma í SÍMEY, allt sem í boði var lærði hann og hefur síðan verið smám saman að byggja ofan á þann grunn. Til að byrja með starfaði hann hjá Ljósgjafanum á Akureyri en frá ársbyrjun 2019 hefur hann verið í starfi hjá Norðurorku og er þar í tilfallandi útiverkum. Vinnunni segist hann kunna afar vel og mikilsvert sé að samstarfsfólkið tali við sig íslensku því þannig sé hann fljótari að læra málið og bæta við orðaforðann.

Mohamad er duglegur að bæta við þekkingu sína og því ákvað hann að skrá sig á málmsuðunámskeið SÍMEY sem lauk í VMA sl. laugardag. Kunnáttan í málmsuðu nýtist Mohamad vel í daglegum störfum sínum hjá Norðurorku. Á þessu námskeiði var kennd MIG-MAG suða.

Eiginkona Mohamads hefur starfað í Hertex og börn þeirra þrjú eru í vetur í þremur skólum. Dóttir þeirra, 21 árs gömul, stundar nám í lífeindafræði í HÍ, 17 ára sonur þeirra er í námi í bifvélavirkjun í VMA og yngri sonurinnn, 15 ára, er í Brekkuskóla.

Á málmsuðunámskeiðinu í VMA voru 10 manns, níu karlmenn og ein kona. Þar af fimm Íslendingar, tveir frá Sýrlandi, aðrir tveir frá Tékklandi og kona frá Póllandi.

Frá Tékklandi til Akureyrar

Martin Basina frá Tékklandi hefur búið frá janúar 2022 á Akureyri með eiginkonu sinni. Áður höfðu þau um nokkurra mánaða skeið starfað í ferðaþjónustu á Suðausturlandi. Leið þeirra lá til Reykjavíkur þar sem þau fundu ekki sína fjöl og fluttu til Akureyrar. Lífinu á Akureyri kunna þau vel og sjá sína framtíð þar. Þau eiga von á sínu fyrsta barni í maí nk.

Martin segist hafa í gegnum tíðina tekist á við ýmislegt á vinnumarkaði í heimalandinu, m.a. smíðar og hann þekki bærilega vel til vínræktar, enda komi hann úr þekktu vínræktarhéraði í Tékklandi. Hann segist ekki vera kominn í fasta vinnu á Akureyri en sé að horfa í kringum sig, ýmislegt komi til greina. Martin ákvað að reyna fyrir sér í málmsuðunni á námskeiðinu hjá SÍMEY og sér ekki eftir því, það hafi verið lærdómsríkt og skemmtilegt.

Málmsuðunámskeið SÍMEY í VMA

Frá árinu 2013 hafa Kristján Kristinsson og Stefán Finnbogason, kennarar á málmiðnbraut VMA, kennt málmsuðu á námskeiðum fyrir SÍMEY. Til námskeiðahaldsins fær SÍMEY aðstöðu í húsakynnum málmiðnbrautar þar sem öll tæki og tól eru til staðar og Kristján og Stefán eru hagvanir.

Frá 2013 hafa þeir félagar verið með á þriðja tug námskeiða og alltaf hefur verið fullbókað á námskeiðin og jafnan einnig verið biðlistar. Augljóslega er því rík spurn eftir að læra málmsuðu. Sumir fara á þessi námskeið fyrst og fremst sér til ánægju, aðrir læra málmsuðu til þess að nýta kunnáttuna í eitt og annað heima í bílskúr en einnig eru alltaf einhverjir sem fara í gegnum þessi námskeið til þess að styrkja sig í starfi á vinnumarkaði, eins og á við um bæði  Mohamad J. Naser og Martin Basina.

Á hverju námskeiði er ein suðuaðferð kennd og á námskeiðinu sem lauk sl. laugardag var kennd MIG-MAG suða. Pinnasuða er kennd á öðru námskeiði og TIG suða á því þriðja.

Þessi námskeið eru 80 klukkustundir og er kennt fjórum sinnum í viku, fjórar klukkustundir í senn. Sem þýðir að námskeiðsdagarnir eru tuttugu. Á þessari önn hefur verið kennt þrjá eftirmiðdaga, á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum, og einnig á laugardögum.

Núna á vorönn hófst kennslan undir lok janúar og námskeiðinu lauk, sem fyrr segir, sl. laugardag. Þessar myndir voru teknar í síðustu viku.

Hámarksfjöldi þátttakenda á hverju námskeiði er tíu sem helst í hendur við fjölda vinnubása fyrir suðuvinnuna. Kristján kennari segir að alltaf hafi verið biðlisti á námskeiðin og oftar en ekki sé það svo að þeir sem sitja námskeiðin skrá sig strax á næsta námskeið. Og mörg dæmi séu um að þeir áhugasömustu sitji öll þrjú suðunámskeiðin.

Kristján segir ánægjulegt að geta nýtt aðstöðuna í VMA á þennan hátt utan skólatíma og gefið þannig áhugasömum kost á því að sækja sér þessa þekkingu. Á námskeiðinu sem nú hafi verið að ljúka hafi hver þátttakandi smíðað tvo útikertastanda.

En þetta er ekki eina námskeiðið sem SÍMEY stendur fyrir í húsakynnum VMA. Einnig er Fab Lab Akureyri með námskeið fyrir alla sem áhuga hafa að læra og nýta sér þá stafrænu tækni sem Fab Lab býður upp á.