Íslenskunámskeið á dagvinnutíma á Siglufirði

Nemendur á námskeiði í íslensku sem öðru máli, sem hófst fyrir viku og stendur til vors á Siglufirði…
Nemendur á námskeiði í íslensku sem öðru máli, sem hófst fyrir viku og stendur til vors á Siglufirði. Námskeiðið er í húsnæði stéttarfélagsins Einingar-Iðju.

 Þann 22. febrúar sl. hófst byrjendanámskeið í íslensku í húsnæði Einingar-Iðju á Siglufirði. Kennt verður fram á vorið, tvisvar í viku kl. 08:30-10:30. Áhugavert er að námskeiðið er kennt á dagvinnutíma, sem má rekja til þess að bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti í september á síðasta ári að gera starfsfólki Fjallabyggðar, sem á lögheimili í sveitarfélaginu, kleift að sækja íslenskunámskeiðin á vinnutíma.

Kennari á þessu námskeiði er Inga Þórunn Waage, sem hefur kennt á íslenskunámskeiðum í SÍMEY undanfarin ár, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Tíu manns eru á námskeiðinu, bæði starfsmenn Fjallabyggðar og fyrirtækja í sveitarfélaginu.

Á framangreindum bæjarráðsfundi í Fjallabyggð í september á síðasta ári samþykkti bæjarráð minnisblað frá Sigríði Ingvarsdóttur, bæjarstjóra í Fjallabyggð, til bæjarráðs þar sem hún leggur til aukinn stuðning við íslenskukennslu fólks af erlendum uppruna með lögheimili í Fjallabyggð. „Þannig komi stofnanir Fjallabyggðar til móts við námskeiðskostnað og greiði það sem upp á vantar, að teknu tilliti til framlaga stéttarfélaga. Fari kennslan fram á dagvinnutíma, skal starfsfólki gert kleift að sækja hana án þess að laun skerðist,“ segir m.a. í minnisblaði bæjarstjóra.

Og síðar í minnisblaðinu segir bæjarstjóri Fjallabyggðar: „Markmiðið með þessum stuðningi Fjallabyggðar er að gefa þeim einstaklingum sem eru af erlendum uppruna, starfa hjá Fjallabyggð og eru með lögheimili í bæjarfélaginu, auðveldara að sækja sér íslenskukennslu. Þannig er þeim gefið betra tækifæri til að öðlast nauðsynlega færni til að þeir geti orðið virkari samfélagsþegnar og átt auðveldara með að samlagast aðstæðum í byggðarlaginu og á landinu í heild. Fjallabyggð hefur auk þess hlutast til um að auka bókakost og námsgögn í Bókasafni Fjallabyggðar sem nýtast til námsins. Bæjarstjóri beinir því einnig til annarra vinnuveitenda í bænum að auðvelda starfsmönnum sínum af erlendum uppruna að sækja sér íslenskukennslu.“