Núna á vordögum hefur verið mikið um að vera í próftöku hjá SÍMEY. Á undanförnum árum hefur SÍMEY boðið upp á þá þjónustu að nemendur sem eru búsettir hér á svæðinu eða dvelja hér en stunda nám í ýmsum skólum, bæði hér á landi og erlendis, geti tekið próf í húsakynnum SÍMEY. Þetta gerir SÍMEY í umboði viðkomandi skóla, annast framkvæmdina og fylgir öllum reglum í því sambandi, býður fram húsnæði og yfirsetu á meðan á prófunum stendur.
Sóley Guðmundsdóttir, þjónustufulltrúi í SÍMEY, segir þessa þjónustu hafa vaxið ár frá ári. Á síðasta ári nýttu á milli sex og sjö hundruð próftakar þessa þjónustu SÍMEY og það sem af er þessu ári er heildartalan um 360 manns og jafnan eru fleiri sem taka próf í SÍMEY undir lok haustannar.
Nemendur sem taka próf sín í SÍMEY stunda nám við t.d. hérlenda háskóla - Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst - og Endurmenntun HÍ. Þetta á líka við um marga framhaldsskóla, t.d. þá skóla í Reykjavík sem bjóða upp á fjarnám – Verslunarskóla Íslands og Fjölbrautaskólann við Ármúla. Einnig er alltaf eitthvað um að nemendur sem stunda nám við erlenda háskóla taki próf sín í SÍMEY.
Af prófum af öðrum toga má nefna að töluvert er um að þeir sem sæki um skotvopnaleyfi taki próf sín í SÍMEY. Þau próf eru á vegum Náttúruverndarstofnunar. Einnig hefur SÍMEY verið með íslenskupróf fyrir Mími-símenntun í Reykjavík fyrir það fólk af erlendum uppruna sem vill sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Þessi próf eru tvisvar á ári – í maí og nóvember. Tvisvar á ári eru afreidd lög frá Alþingi um veitingu ríkisborgararéttar, í lok vor- og haustþings. Núna í maí hafa 28 tekið próf í SÍMEY vegna umsóknar um ríkisborgararétt.
Prófin sem nemendur taka í SÍMEY eru af ýmsum toga – oftast í tölvu en í nokkrum tilfellum eru þau munnleg og einnig skrifleg á pappír. Fyrir hefur komið að SÍMEY hafi einnig boðið upp á próf í húsakynnum miðstöðvarinnar á Dalvík.
Næstu próf sem SÍMEY sér um verða í ágúst en þá verður boðið upp á próf fyrir nemendur sem hafa stundað fjárnám á sumarönn við annars vegar Verslunarskóla Íslands og hins vegar Fjölbrautaskólann við Ármúla.